Lífið

Dorrit klappaði á óléttubumbur blaðakvenna

Óli Tynes skrifar

Íslendingar eru orðnir nokkuð vanir því að Dorrit Moussiaef forsetafrú er afskaplega manneskjuleg og látlaus í framkomu, jafnvel við formleg opinber tækifæri.

Þannig beygði hún sig niður í einni heimsókninni og reimaði skó á ungan strák sem var í móttökunefnd barna. Í Skagafirði á dögunum var napurt og vindasamt. Þá tók hún unga blómastúlku undir loðkápuna sína til þess að hlýja henni.

Og manneskjan í Dorrit skaut aftur upp kollinum í dag þegar forsetahjónin tóku á móti dönsku krónprinshjónunum á Bessastöðum.

Að loknum stuttum blaðamannafundi fórnaði Dorrit höndum og sagði: „Ég verð að spyrja; eru allar blaðakonur á Íslandi óléttar?" Og klappaði blíðlega á magann á þeim Sigríði Hagalín, fréttakonu á Ríkissjónvarpinu og Áslaugu Skúladóttur, fréttakonu á RÚV. Þær brugðust við brosleitar.

Þess má geta að frjósemin virðist í besta lagi hjá ríkisstofnuninni því auk þessara tveggja eiga líka von á barni þær Þóra Arnórsdóttir, Brynja Þorgeirsdóttir og Rakel Þorbergsdóttir. Til hamingju allar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×