Viðskipti innlent

Segja grein sir Wade í FT rangfærslur í meginatriðum

Tveir prófessorar hafa ritað grein í Financial Times (FT) þar sem þeir segja að grein sir Robert Wade í sama blaði þann 2, júlí sé rangfærslur í nokkrum meginatriðum.

Prófessorarnir sem hér um ræðir eru Friðrik Már Baldvinsson hjá Háskólanum í Reykjavík og Richard Portes hjá London Business School. Sir Wade er aftur á móti prófessor við London School of Economics.

Meðal þess sem þeir Friðrik og Richard reka ofan í sir Wade er fullyrðing hans um að íslensku bankarnir hafi léttvægar starfsreglur til að fara eftir. Benda þeir á að regluverkið sé nákvæmlega það sama og gildir innan EVrópusambandsins.

Hvað varðar þá fullyrðingu sir Wade að íslensku bankarnir hafi hagað sér eins og vogunarsjóðir benda þeir á að megnið af vexti þeirra hafi komið í gegnum samruna og yfirtöku á öðrum fjármálastofnunum. Því sé starfssemi þeirra dreifð hvort sem horft er til landfræðilegra þátta eða umsvifa.

Það sem einkum vakti athygli á grein sir Wade hérlendis var sú fullyrðing hans að Samfylkingin hyggðist slíta ríkisstjórnarsamstarfinu vegna stöðunnar í efnahagsmálum.

Um þessa fullyrðingu segja þeir Friðrik og Richard að dreifing á slíku slúðri ásamt kæruleysi prófessor Wade í umgengni um staðreyndir sé miður í þeirri viðkvæmu stöðu sem fjármálamarkaðir heimsins eru í nú um stundir.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×