Skoðun

Skuldadagar

Heimilin í landinu hafa legið undir ámælum fyrir skuldasöfnun síðustu árin og sligast nú mörg hver undan byrðinni. Sumir eiga eflaust gagnrýnina skilið. Það setur auðvitað enga þjóð á hausinn þótt fólk endurnýi sjónvörpin sín (eins og heyrst hefur) en það er heldur ekki skynsamlegt að veðsetja íbúðirnar sínar fyrir hlutabréfakaupum, kríta ofvaxinn efnahagsreikning í krafti framtíðarveltu og sanka að sér ógreiddum lúxusvörum frá útlöndum. Ég vorkenni þessu fólki því það er mjög óheppið. Það sá ekki fyrir efnahagshrunið og situr nú uppi með dót sem það á engan veginn fyrir.

Meginþorri fólks hefur þó ekki hagað sér með svo áhættusömum hætti. Það er rangt sem svo víða heyrist, að við séum öll jafn ábyrg. Skuldir almennings eru að langstærstum hluta til komnar vegna hátt verðlagðra heimila sem ekki var hægt að komast yfir öðruvísi en með gríðarlegum lántökum. Og það þýðir ekkert að sakast við fólk af að það keypti sér þak yfir höfuðið. Að eiga heimili er frumforsenda lífsgæða í upplýstu og menntuðu landi. Skilaboð ráðamanna til samfélagsins voru á þann veg að hér ríkti efnahagsleg hagsæld, góðæri, jafnvel stöðugleiki.

Í Reykjavík hefur leigumarkaðurinn verið svo hrottalegur síðustu árin og félagshúsnæði svo takmarkað (þrátt fyrir meinta hagsæld) að fólki stóð fátt annað til boða en að kaupa sér húsnæði, ef það á annað borð gat. Ábyrgðin er hér vitanlega mismikil líka. Þeir sem keyptu steinsteyptar víðáttur án þess að eiga fyrir nema eins og einum vegg geta auðvitað sjálfum sér um kennt ef bankinn vill húsnæðið til baka. Hinir aftur á móti, sem héldu að sér höndum og sættu sig við þröngan kost í dýrtíðinni, sæta nú sömu örlögum. Ég þekki til dæmis fólk sem í stað þess að sökkva sér í skuldaf sló upp þili í stofunni þegar fjölgun varð á heimilinu. Nú á það á hættu að missa verðtryggða íbúðina í hendur lánadrottna, og þar með allar útborganir og endurbótagjöld sem í hana hafa farið.

Fasteignir eiga orðinu samkvæmt ekki að vera áhættufjárfesting. Auðvitað getur fólk lent í því hvar sem er í heiminum að fá ónýtt hús eða „kaupa á röngum tíma". Slíkt er blanda af skammsýni og óheppni sem í undantekningartilfellum skapar krísu, eins og bandarísku undirmálslánakrísuna (sem stjórnvöld og lánastofnanir bera auðvitað talsverða ábyrgð á). Munur á t.d spænskum og íslenskum fasteignaeiganda sem horfir nú upp á fallandi verð er hins vegar sá að höfuðstóll lánanna lækkar í hverjum mánuði hjá þeim spænska en hækkar bara og hækkar hjá þeim íslenska - þrátt fyrir að drjúgur hluti teknanna fari í að greiða hann niður. Spánverjinn sem keypti of dýrt í fyrra er fúll en hann lifir þetta af vegna þess að hann býr við eðlileg lánaviðskipti og getur staðið af sér stöðnunina þar til eignin vex aftur í verði. Þannig virkar fasteignakerfið víðast hvar, nema á Íslandi.

Verðtrygging fasteignalánanna er slíkur dragbítur á heimilunum að jafnvel sjálft vaxtaokrið bliknar í samanburði. Það þarf ekki nema eina óðaverðbólgu á 40 ára lánstíma til að éta upp áratuga afborganir af höfuðstól íslensks húsnæðisláns. Hér varð óðaverðbólga í lok sjöunda áratugarins, aftur á þeim áttunda og níunda og nú upplifum við hana eina ferðina enn á 40 ára tímabili - og eru þá ótalin mörg minni verðbólguskot sem tekist hefur að hemja. Glæpurinn virðist enn stærri í ljósi þess að jafnvel þótt verðbólgumarkmið Seðlabankans fengi einhvern tíma staðist, sem það hefur ekki gert lengi, þá dygði sú verðbólga að viðbættum ógnarháum vöxtum til að viðhalda höfuðstól lánanna lengur en flest fólk hefur viðdvöl í sama húsnæðinu.

Nú er svo komið að bregðist stjórnvöld ekki strax við verður stór hluti almennings orðinn eignalaus innan fáeinna mánaða. Tugir þúsunda fjölskyldna flosna upp og lenda í höndum nýju ríkisbankanna, sem síðan sitja uppi með húsnæðið með tilheyrandi verðfalli, stöðnun, afskriftum og kostnaði. Væri ekki betra að hjálpa heimilunum í landinu í þeim lífróðri sem fram undan er, og afnema verðtrygginguna? Í allra minnsta lagi frysta hana á meðan versta höggið ríður yfir? Á maður að trúa því að allar þessar eignir eigi að fá að renna aftur inn í bankana áður en þeir verða einkavæddir á ný? Hversu oft eiga launglæpir íslenska bankakerfisins að fá að kjöldraga þessa þjóð?

Sú staðreynd að lénsherrarnir eru nú hinir sömu og fólkið sem við kusum inn á þing fyrir um einu og hálfu ári ætti að vera kvíðnum almenningi huggun, svo fremi sem eitthvert traust er hægt að bera til framkvæmdavaldsins. Það hefur eftir allt saman tækin til að bjarga því sem bjargað verður. Margbaktryggt vaxtaokrið, stutt af stjórnvöldum og Seðlabanka, er ein af stærri ástæðum skipbrotsins sem þjóðin hefur beðið. Og nú hafa stýrivextir verið hækkaðir í 18%, að margra áliti til þess að afstýra innlausnum krónubréfanna. Enn og aftur lendir íslenskur almenningur aftast í forgangsröðinni þegar greiða á úr flækjunni. Eða hefði kannski ekki mátt fara varlegar í útgáfu þessara bréfa?

Á meðan fólkið í landinu mætti sínum hversdagsleika af bjartsýni og dugnaði í brothættum uppgangi síðustu ára varð það bröskurum og ónýtri peningamálastefnu að bráð, með þeim afleiðingum að kvíðinn er nú helsta kenndin sem elur brjóst Íslendinga. Eina leiðin út er að breyta algjörlega um stefnu. Hagsmunir almennings hljóta að felast í því að komið verði í veg fyrir slíkt fjöldagjaldþrot sem við blasir, með öllum tiltækum ráðum. Afnám verðtryggingarinnar (bundin stuðningi við lífeyrissjóðina ef hægt er) er eitt þessara ráða og til þess þarf að grípa strax. Það þarf hugrakka stjórnmálamenn til að höggva á rígbundna hnúta. En bregðist stjórnvöld ekki við er það eitt víst að allsherjar upplausn verður í landinu.

Höfundur er rithöfundur.






Skoðun

Sjá meira


×