Erlent

ÞSSÍ aðstoðar við uppbyggingu jarðvarmavirkjana í Níkaragva

Neyðarástand ríkir í orkumálum í Níkaragva en möguleikar landsins til nýtingar jarðvarma eru mjög miklir, að sögn Geirs Oddssonar umdæmisstjóra Þróunarsamvinnustofnunar í landinu. Hann segir umframeftirspurn gífurlega og að skömmtun rafmagns sé daglegt brauð.

Fyrr í mánuðinum fór rúmlega 25 manna hópur úr orku- og námumálaráðuneyti og umhverfis og auðlindaráðuneyti Níkaragva til El Salvador í boði Þróunarsamvinnustofnunar Íslands til að taka þátt í námskeiði um umhverfisáhrif jarðvarmavirkjana. Námskeiðið var skipulagt og haldið af LaGeo, þarlendu fyrirtæki sem er það eina á sviði jarðhita í El Salvador. Námskeiðið er hluti af fimm ára verkefni ráðuneytanna og ÞSSÍ sem miðar að uppbyggingu þekkingar og aukinni nýtingu jarðvarma í Níkaragva. Athygli vakti að allir fyrirlesarar LaGeo á námskeiðinu hafa lokið námi í Jarðhitaskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.

Gioconda Guevara, verkefnisstjóri ÞSSÍ í jarðhitamálum í Níkaragva, segir mikilvægt að nýta sér þekkingu nágrannalanda sinna. Í El Salvador, sem býr við svipaðar aðstæður og Níkaragva, hefur nýting jarðhita verið til fyrirmyndar með ríka áherslu á verndun umhverfis og náttúru. LaGeo rekur nú tvær jarðvarmavirkjanir í El Salvador sem framleiða 24% af orkuþörf landsins en hlutfall jarðhita í orkuframleiðslu Níkaragva nær aðeins tæplega 8% þrátt fyrir miklar jarðhitaauðlindir. Samhliða orkuverunum stendur LaGeo einnig fyrir ýmsum félagslegum verkefnum þar sem unnið er með íbúum virkjanasvæðanna.

Geir Oddsson segir að mikill meirihluti orkuframleiðslu landsins komi frá díselstöðvum með tilheyrandi mengandi útblæstri, háum rekstrarkostnaði og óöryggi.

 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×