Innlent

Með milljarð inn á reikningnum sínum

Almennur borgarstarfsmaður sem setið hefur í gæsluvarðhaldi síðan á föstudaginn geymdi allt að einn milljarð króna á bankareikningum sínum. Hann er talinn tengjast máli forstöðumanns verðbréfafyrirtæksins sem grunaður er um peningaþvætti og fjársvik.

Við sögðum frá því í fréttum okkar í gær að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjóra fór fram á að Friðjón Þórðarson, sem er forstöðumaður hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu, yrði úrskurðaður í gæsluvarðhald. Hann hefur verið í haldi lögreglunnar síðan á sunnudag. Héraðsdómur hafnaði þeirri kröfu í dag. Hann verður að öllum líkindum látinn laus í kvöld eða á morgun.

Rannsókn efnahagsbrotadeildar Ríkislögreglustjóra á málefnum Friðjóns hófst eftir að ábendingar bárust um að almennur starfsmaður Orkuveitunnar, sem vinnur við eftirlit og umsjón með götuljósum, velti fleiri hundruð milljónum króna í gegn um bankareikninga sína.

Í einhverjum tilfellum munu innistæður á bankareikningum borgarstarfsmannsins hafa verið rétt tæplega einn milljarður króna.

Eftir að efnhagsbrotadeildin hóf rannsókn kom í ljós að maðurinn og félag tengt honum hafði fengið nokkur lán í Kauþingi aðeins til eins dags í senn til þess eiga umfangsmikil gjaldeyrisviðskipti. Grunur leikur á að þessi viðskipti hafi flest öll verið tengd Friðjóni.

Friðjón er forstöðumaður verðbréfamiðlunar hjá verðbréfafyrirtækinu Virðingu og sem slíkur hafði hann oft á tíðum upplýsingur um með hvaða hætti skjólstæðingar Virðingar hugðist eiga gjaldeyrisviðskipti. Samkvæmt heimildum fréttastofu leikur grunur á að Friðjón, sem ekki var heimilt að eiga nein viðskipti af þessu tagi, hafi nýtt sér þessar upplýsingar úr starfi sínu til að eiga slík viðskipti og notað nafn og reikninga borgarstarfsmannsins.

Ekki náðist í forstöðumann efnhagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra vegna málsins í dag.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×