Handbolti

Ólafur ekki með rifinn vöðva - gæti spilað gegn Frökkum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur fær hér högg í kviðinn frá Kim Andersson, leikmanni Svía.
Ólafur fær hér högg í kviðinn frá Kim Andersson, leikmanni Svía. Mynd/Pjetur

Það eru jákvæðar fréttir sem berast úr herbúðum íslenska landsliðsins en meiðsli Ólafs Stefánssonar eru ekki jafn slæm og óttast var.

Að sögn Einars Þorvarðarsonar framkvæmdarstjóra HSÍ verður Ólafur ekki með gegn Slóvökum á morgun en það gæti verið að hann verði orðinn klár fyrir leikinn mikilvæga gegn Frökkum á sunnudag.

„Lærvöðvinn er ekki rifinn," sagði Einar. „En hann er tognaður og það gæti verið að vöðvafestingin sé eitthvað rifin. Svo var einhver blæðing á þessu svæði þar að auki."

„Það er erfitt að segja til um batahorfur en við vitum meira á morgun. Það er erfitt að segja hvort hann nái Frakkaleiknum en það gæti verið."

Einar gerir þó ráð fyrir því að Ólafur geti spilað með Íslandi í milliriðlakeppninni, komist liðið þangað.

„Við erum að gera okkur vonir um það," sagði hann.

Hann segir annars lítið fréttnæmt af íslenska hópnum sem hefur verið að skoða bæði leik Íslands og Svíþjóðar í dag sem og leik Frakklands og Slóvakíu.

„Það er ekki hægt að segja annað en að Slóvakar séu með mjög sterkt lið."


Tengdar fréttir

Ólafur verður ekki með í næstu tveimur leikjum

Ólafur Stefánsson hefur staðfest að hann muni ekki leika með íslenska landsliðinu í tveimur síðustu leikjum þess í D-riðlinum á EM. Ólafur fer í ómskoðun á eftir en grunur leikur á um að hann sé með rifinn vöðva aftan í læri. Hann segist sjálfur útiloka að vera með gegn Slóvökum og Frökkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×