Viðskipti innlent

ÁTVR hagnaðist um hálfan milljarð í fyrra

MYNDHörður
ÁTVR hagnaðist um rúmlega hálfan milljarð króna í fyrra samkvæmt ársreikningi sem gerð eru skil í hálffimmfréttum Kaupþings. Þrátt fyrir að hagnaður þess hafi dregist saman um 16 prósent á milli ára var reksturinn umfram áætlanir.

Sala var sjö prósentum umfram áætlanir en rekstrartekjur námu rúmum 19,3 milljörðum króna sem var um nærri níu prósenta hækkun á milli ára. Hins vegar jukust gjöldin öllu meira eða um tíu prósent og námu þau rúmum 19 milljörðum króna.

Sala á áfengi nam alls 12,7 milljörðum króna á síðasta ári, sem var um 11 prósenta aukning frá fyrra ári. Heildarsala áfengis var um 19,6 milljarðar lítra og vó sala á bjór þar langþyngst. Bjórsala jókst um 5,7 prósent en um 2,7 prósent á léttu víni. Hins vegar jókst sala á sterku áfengi um rúman fjórðung á milli ára.

Heiðrún reyndist söluhæst

Þá segir í hálffimmfréttunum að hálfslítra dósabjór frá Víkingi hafi selst mest í fyrra, eða í yfir 2,1 milljónum lítra. Vínbúðin Heiðrún var söluhæsta vínbúðin hvað snerti sölu áfengis en alls nam velta verslunarinnar rúmum tveimur milljörðum. Þrjá aðrar verslanir seldu fyrir yfir einn milljarð króna, Vínbúðin Skeifunni/Holtagörðum, Vínbúðin Dalvegi og Vínbúðin Kringlunni.

„Sölutölur sýna að sala áfengis í vínbúðum, sem eru staðsettar í stóru verslanamiðstöðvunum tveimur á höfuðborgarsvæðinu, var að dragast saman annað árið í röð," segir enn fremur í hálffimmfréttunum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×