Skoðun

Sterk ímynd Íslands er hrunin

Jón Hákon Magnússon skrifar um ímyndarvanda Íslands:

Ímynd og ásjóna Íslands er hrunin. Traust á Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum er fokið út í veður og vind. Trúverðugleikinn, sem var sterkur, er ekki upp á marga fiska.

Erlendir fjölmiðlar sem höfðu, til skamms tíma, mikinn áhuga á öllu sem íslenskt var, gera nú grín að þjóðinni. Verra er að við gerum lítið sem ekkert til að verja ímynd lands og þjóðar. Traust ímynd og ásjóna er ein dýrmætasta eign einnar þjóðar rétt eins og gott orðspor er verðmætasta eign hvers einstaklings. Það tekur áratugi að byggja upp trausta ímynd og gegnheilt orðspor, en örskamma stund rústa því.

Orðspor okkar hrundi á fáeinum dögum eftir áratuga vinnu við að skapa Íslandi verðugt sæti í fjölskyldu þjóðanna. Í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar var Ísland afskekkt óþekkt danskt yfirráðasvæði á N-Atlantshafi. Einangruð eyja utan alfaraleiðar. Þegar breski herinn tók sér bólfestu hér til að koma í veg fyrir að her Hitlers næði kverkataki á Bretum fóru að birtast erlendis fréttir frá Íslandi.

Eftir stríð vorum við aftur nánast gleymd og áhugi fjölmiðla var lítill sem enginn. Framsýnir landsmenn létu það ekki á sig fá og dugmiklir athafnamenn byggðu upp sterk alþjóðleg fyrirtæki sem drógu athyglina að landinu þ.m.t. SH og Loftleiðir. Landhelgisdeilur við Breta komu Íslandi í heimsfréttir, með oftast jákvæðum formerkjum fyrir okkur.

Skákin átti mikinn þátt í að skapa Íslandi gott nafn. Stærsti atburðurinn, einvígi Bobbys Fischer og Boris Spassky, kom landinu í heimspressuna, svo eftir var tekið. Ísland var að nálgast það að komast á heimskortið til frambúðar. Fólk í fjarlægum heimsálfum var farið að átta sig á að hér byggi menningarþjóð við öflugt lýðræði. Ímynd og ásjónu Íslands óx fiskur um hrygg. Sterkt orðspor Íslendinga á alþjóðavettvangi styrktist að sama skapi.

Loks komst Ísland á heimskortið til framtíðar á leiðtogafundi Ronalds Reagan og Mikhails Gorbatsjev í Höfða 1986. Tveir framsýnir ráðherrar, Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Matthías Á. Mathiesen utanríkisráðherra ákváðu að nota viðburðinn til þess að koma Íslandi á framfæri við heimspressuna. Reglan er sú að gestgjafi slíkra funda heldur sig til hlés, en þeir sáu gullið tækifæri til að styrkja ímynd Íslands gagnvart heimsbyggðinni. Þeir spöruðu hvorki tíma, fé né fyrirhöfn til þess að það tækist. Með nokkurra daga fyrirvara var opnuð vel mönnuð alþjóðleg fjölmiðlamiðstöð í Haga- og Melaskóla, sem fékk það hlutverk að gera allt til að þjóna heimspressunni sem fjölmennti hingað. Komið var á fót fréttamiðstöð sem útbjó íslenskar fréttir, upplýsingaefni og ítarefni fyrir erlendu fréttamennina. Að auki allt var gert til að hjálpa þeim að búa til frétta- og fræðsluefni um Ísland.

Þessa októberdaga naut Ísland ómældrar athygli fjölmiðla um víða veröld. Fyrstu daga Höfðafundarins var Ísland aðalfréttin. Þegar Gorbatsjev kom á tuttugu ára afmæli fundarins kom hann að máli við mig í Höfða og sagðist ekki skilja hvernig við gátum haldið heimspressunni rólegri í tíu daga og bætti við: „Það var ekki fyrr en ég hélt blaðamannafundinn í Háskólabíói sem fjölmiðlarnir fengu áhuga á sjálfum fundinum.“

Ísland var komið á heimskortið. Við höfum notið orðsporsins hvar sem er á sviði utanríkis-, viðskipta-, banka-, menningar- og ferðamála frá þeim tíma. Sterk ímynd hefur reynst vel þar til fáeinum útrásarmönnum tókst að eyðileggja trausta ímynd með þöglu samþykki þjóðarinnar. Það er ekki nóg. Stjórnvöld hafa með ótrúlegum klaufaskap bætt um betur og látið fjölmiðla um allan heim vaða yfir okkur á skítugum skóm án þess að reyna að snúa vörn í sókn. Nú er ímynd landsins rústir einar og vörumerkið Ísland er illa leikið. Ísland er í augum alheimsins eins og FL Group í okkar augum. Það er t.d. með ólíkindum að áhrifamiklir miðlar eins og Wall Street Journal nái ekki sambandi við forsætisráðuneytið. Mörg fleiri dæmi mætti nefna. Stjórnvöld gorta nú af því að notast við krísuáætlun NATO-herja. Hún gerir ekkert til að leiðrétta óteljandi rangfærslur um okkur í erlendum fjölmiðlum. Eigum við líka að fórna ímynd lands og þjóðar? Er ekki nóg að bankakerfið sé ónýtt? Er ekki nóg að erlendir bankar og ríkisstjórnir vilja ekki við okkur tala? Var nauðsynlegt að rústa á fáeinum dögum ásjónunni sem tók áratugi að skapa. Er það ekki hlutverk stjórnvalda að gera sitt ýtrasta til verja ásjónu Íslands með „kjafti og klóm“? Eða er ég að misskilja þetta eitthvað?

Höfundur er ráðgjafi í almannatengslum.




Skoðun

Sjá meira


×