Skoðun

Misskilningur um makrílveiðar

Sigurður Sverrisson skrifar

Umræðan

Makrílveiðar

Þeim ásökunum var haldið fram í frétt á vefsíðu BBC þann 10. nóvember sl. að íslensk skip hefðu veitt fimmfalt meira magn af makríl en kvóti þeirra segir til um. Þetta er mikill misskilningur.

Ríkissjónvarpið tók fréttina upp í síðari kvöldfréttum þann sama dag. Þessum sömu ásökunum um ofveiði á makríl var aftur ranglega haldið fram í bakþönkum Kolbeins Óttarssonar Proppé í Fréttablaðinu þriðjudaginn 18. nóvember sl.

Sá 20 þúsund tonna kvóti sem vísað er til í upphaflegri frétt BBC tekur til veiða á alþjóðlegu hafsvæði. Íslendingar hafa hins vegar veitt 110 þúsund tonn af makríl innan eigin lögsögu. Samkvæmt Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna hafa Íslendingar óskoraðan rétt til þessara veiða. Ásakanir um ofveiði eru því bæði rangar og villandi.

Hið rétta í málinu er að í heilan áratug hefur ósk Íslendinga um að fá að taka þátt í viðræðum annarra strandríkja um ákvörðun og skiptingu heildarkvóta makríls í NA-Atlantshafi ítrekað verið hafnað. Meginforsenda þeirrar höfnunar hefur verið að makríl sé ekki að finna innan íslensku lögsögunnar og því sé tilkall okkar til veiða úr stofninum ekki á rökum reist.

Af þessu leiðir að Íslendingar eru ekki aðilar að samkomulagi strandríkja um skiptingu makrílkvóta eins og öðrum deilistofnum á borð við síld, loðnu og kolmunna. Það er því beinlínis órökrétt að ætlast til þess að þriðji aðili hlíti skilmálum samkomulags sem gert í óþökk hans og að honum fjarstöddum.

Á þessu ári hafa íslensk skip veitt um 110 þúsund tonn af makríl innan íslenskrar lögsögu. Hvort þessi afli nægir til þess að opna augu annarra strandríkja fyrir þeirri staðreynd að makríll veiðist í íslenskri lögsögu er önnur saga. Hitt er augljóst, að íslensk stjórnvöld eru óbundin af ákvörðunum annarra strandríkja um makrílkvóta þar til fulltrúum Íslands verður boðin aðild að gerð samninga um veiðarnar.

Höfundur er upplýsinga- og kynningarfulltrúi LÍÚ.






Skoðun

Sjá meira


×