Viðskipti innlent

Stýrivaxtahækkunin er dæmd til að mistakast í ljósi sögunnar

Stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands er dæmd til að mistakast í ljósi sögunnar. Þetta ætti Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (IMF) að vera vel kunnugt eftir að sjóðurinn reyndi sömu aðferð í Asíu árin 1997-98 með hörmulegri niðurstöðu.

Seðlabankinn segir að hækkunin sé gerð að kröfu IMF og ætlunin sé að styrkja gengi krónunnar. Fordæmin sýna hinsvegar að dæmið gengur alls ekki upp. Þetta kemur fram í umfjöllun á Bloomberg-fréttaveitunni.

Englandsbanki ákvað í september 1992 að hækka stýrivexti sína í tveimur stökkum um 5% og upp í 15% til að halda pundinu inni í gjaldeyriskerfi Evrópubandalagsins. Bankinn gafst upp í annarri tilrauninni og dró þá hækkun til baka samdægurs. Pundið lækkaði um 22% gagnvart dollaranum á næstu tveimur mánuðum.

Meðan á fjármálakreppunni í Asíu árin 1997-98 stóð lagði IMF til að stýrivöxtum yrði haldið háum til að reyna að styrkja gengi gjaldmiðla þeirra landa sem harðast urðu úti í kreppunni. Seðlabankar Indónesíu, Taílands, Suður Kóreu og Singapore fóru að ráðum IMF. Suður-Kórea setti vextina raunar í 30% í desember 1997.

Þessar aðgerðir misheppnuðust algerlega og gjaldmiðlar um alla álfuna hrundu. Í Suður-Kóreu féll wonið um 47% gagnvart dollaranum, Í Taílandi féll bahtið um 45% og í Indónesíu féll rúpían um 56%.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×