Erlent

Pirraðir ferðalangar

Fjöldi ferðalanga kom í dag heim úr ferðum á vegum XL og segja farir sínar ekki sléttar. Alls hefur gjaldþrot félagsins áhrif á rúmlega þrjú hundruð þúsund manns sem áttu pantaðar ferðir hjá félaginu. Önnur bresk ferðaskrifstofa fór einnig í gjaldþrot um helgina. Hækkandi eldsneytisverði og efnahagsþrengingum er kennt um.

Martröðin hófst fyrir suma farþega XL á fimmtudagskvöld þegar þeir voru staddir í farþegaflugvél á Orlando flugvelli í Flórída og tveir lögreglubílar með blikkandi ljós stöðvuðu flugvélina. Þeir komust ekki heim þann daginn.

Það eru 85.000 ferðamenn sem nú eru erlendis á vegum ferðaskrifstofunnar og 240 þúsund sem voru búnir að panta ferðir. Það voru úrillir ferðamenn sem komu til Gatwick í morgun.

Í dag var tilkynnt um gjaldþrot annarrar ferðaskrifstofu í Bretlandi, K og S. Fimm hundruð og fimmtíu ferðalangar verða fyrir því falli. Ástæðan er sú sama og XL: hækkandi olíuverð og þrengingar í efnahagsmálum.

Aðrar afleiðingar XL gjaldþrotsins voru þær að leikmenn West Ham léku í dag án vörumerkis kostunaraðila liðsins á bringunni - merki XL.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×