Viðskipti innlent

Fjárfestum ekki tilkynnt um breytingar á peningabréfasjóði

Fjárfestum í peningabréfasjóði Landsbankans var ekki tilkynnt um breytingar sem gerðar voru á fjárfestingarstefnu sjóðsins líkt og lög gera ráð fyrir. Breytingar voru gerðar á sjóðnum þann 17.apríl 2008 eftir tilmæli frá Fjármálaeftirlitinu sem varðaði heimild til að taka við innlánum. Fjármálaeftirlitið segir það ekki sitt hlutverk að fylgjast með því hvort sjóðsfélögum sé send tilkynning og bendir á forsvarsmenn sjóðsins.

„Við vorum að tilgreina það að við mættum vera í innlánum sem væru ekki sérgreind frá bankavíxlum eða öðrum útgefnum bankabréfum og það var að tilmælum FME. Í samráði við FME var ákveðið að þetta væri ekki tilkynningarskylt," segir Stefán H. Stefánnson framkvæmdarstjóri eignastýringar Landsbankans og umsjónarmaður Landsvaka sem rekur sjóðinn.

Í lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði 30/2003 er kveðið skýrt á um að rekstrarfélag skuli tilkynna eigendum hlutdeildarskírteina verðbréfasjóðs um hverja breytingu á reglum sjóðsins. Fjármálaeftirlitinu er hinsvegar heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði. Samkvæmt upplýsingum þaðan var sú undanþága ekki veitt í þessu tilfelli.

„Ég tel hinsvegar mikilvægt að það komi fram að þetta var ívilnandi breyting en ekki íþyngjandi fyrir handhafa hlutdeildarskírteina, semsagt jákvæð breyting fyrir sjóðsfélaga og hún var birt í Lögbirtingarblaðinu," segir Úrsúla Ingvarsdóttir upplýsingafulltrúi hjá Fjármálaeftirlitinu.

Stefán segir að FME hafi í sjálfu sér ekki veitt sjóðnum sérstaka undanþágu um að tilkynna sjóðsfélögum um breytingarnar en uppfærðar útboðslýsingar, úrdrættir og aðrar upplýsingar voru settar á heimasíðu sjóðsins.

En hefðuð þið ekki átt að tilkynna sjóðsfélögum um breytingarnar?

„Það má vel vera. En miðað við fyrri samskipti okkar töldum við þetta nægja og því var ekki andmælt af hálfu eftirlitsins. Því töldum við okkur stætt á að gera þetta svona," segir Stefán.

Þess má geta að fyrr í dag ákvað Landsbankinn að slíta peningamarkaðssjóðum sínum og greiða inn á innlánsreikninga viðkomandi einstaklinga. Uppgreiðsluhlutfallið er mismunandi eftir mynt en flestir áttu Peningabréf í íslenskum krónum. Þeir fá 68,8 prósent af bréfum sínum greidd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×