Viðskipti innlent

Byr segir stöðuna sterka og að engin tengsl séu við Exista

„Vegna umræðu um stöðu sparisjóðanna áréttar Byr, að staða sparisjóðsins er sterk, hvort heldur litið er til eiginfjárhlutfalls, lausafjárstöðu eða hlut erlendra lána í starfseminni."

Þetta segir í tilkynningu sem Byr sendi frá sér í dag. „Byr sparisjóður beinir þeim eindregnu tilmælum til þeirra sem eru að fjalla um stöðu sparisjóðanna á opinberum vettvangi, að gæta ummæla sinna. Nokkurs misskilnings hefur gætt á ólíkri stöðu sparisjóðanna og heitum þeirra jafnvel verið víxlað," segir ennfremur í tilkynningunni.

Ennfremur segir að vart þurfi að taka fram hversu alvarlegar afleiðingar slíkar rangfærslur geta haft fyrir jafnt Byr sem aðra sparisjóði, við þær aðstæður sem nú eru uppi. „Rétt er í þessu sambandi að taka fram að engin tengsl eru á milli Byrs og Exista.“

Þarna er verið að vísa til mistaka sem voru gerð í Morgunblaðinu í dag þar sem Byr er ruglað saman við SPRON og sparisjóðurinn sagður í hættu.

Að Byr standa fjórir sameinaðir sparisjóðir og hefur Byr talsverða sérstöðu að því leyti.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×