Skoðun

Við getum þetta

Stefán Ólafsson skrifar

Þegar hamfarir ganga yfir er mikilvægt að skilja þá möguleika sem eru fyrir hendi. Grundvöllur samfélagsins á Íslandi mun standa áfram þótt fjármálayfirbyggingin sé hrunin og dragi annað með sér í fallinu. Sá grundvöllur er sterkur. Ég vil benda á nokkur atriði sem sýna að við eigum vel að geta staðið þetta af okkur og risið upp á ný.

Hagsæld Íslendinga var góð áður en nýfrjálshyggjan og einkabankarnir komu til valda. Íslendingar höfðu um langt árabil verið í hópi tíu til tólf ríkustu þjóða heims og erlendar skuldir voru hóflegar. Frá 1960 til 1980 var hagvöxtur t.d. mun meiri en verið hefur eftir 1995. Það er því alrangt þegar fullyrt er að hagsældin á síðustu árum hafi verið meiri en nokkru sinni fyrr í sögu þjóðarinnar.

Kaupmáttaraukning almennings var einnig mun meiri 1960 til 1980 en á tímabilinu 1995 til 2005. Mikið fé var vissulega í umferð og neyslukapphlaupið gríðarlegt á síðustu árum, en það hvíldi á skuldasöfnun. Þetta sýnir að hagsæld þjóðarinnar var orðin traust áður en nýfrjálshyggjan og einkabankarnir leiddu okkur í núverandi stöðu. Eftir fyrirliggjandi hreingerningu mun vinnusöm þjóðin hafa möguleika til nýrrar sóknar, en á traustari grunni.

Annað sem sýnir að við getum staðið þetta af okkur er það að á 20. öldinni urðu Íslendingar oft fyrir stórum efnahagsáföllum sem leiddu til mikilla tímabundinna kjaraskerðinga. Hrun síldarstofnsins skók t.d. efnahagslegar undirstöður hagkerfisins á árunum 1968 til 1970. Gengisfall varð mikið, kaupmáttarskerðing sömuleiðis og aukið atvinnuleysi. Nokkur brottflutningur varð en síðan reis þjóðin fljótt til nýrrar sóknar. Fleiri slík áfallatímabil má nefna, svo sem árin 1983-4 þegar byrði vegna húsnæðisskulda keyrði um þverbak.

Í kreppu verður velferðarkerfið enn mikilvægara en áður. Þannig þarf Íbúðalánasjóður að verða mörgum til bjargar á næstu misserum. Almannatryggingar munu þurfa að bæta lífeyrisþegum tapaðan lífeyri frá lífeyrissjóðunum að hluta og verja sérstaklega þá sem minnst hafa. Stjórnvöld þurfa því að hafa velferðarmál í forgangi. Það mun milda þrengingarnar sem nú leggjast á þjóðina.

Höfundur er prófessor við Háskóla Íslands.








Skoðun

Sjá meira


×