Skoðun

Er hetja á Alþingi?

Við lýðræðislegar kosningar framselja menn rétt sinn til að stjórna samfélaginu til annarra, og þessir aðrir eru upp frá því ábyrgir fyrir hinu framselda valdi. Kjósandinn framselur sína ábyrgð á að stjórna að miklum hluta til þess sem er í framboði.

Ráðamaðurinn er fínn maður af því hann hefur þessa ábyrgð frá fjölda kjósanda. Það sem réttlætir háar tekjur, virðingu og hlunnindi ráðamannsins er ábyrgðin sem hann ber á herðunum eins og skikkju frá þeim sem kusu hann.

Ábyrgð er grunneining í lýðræðinu, það er gjaldmiðillinn sem menn skipta á milli sín og flokka hverja aðra út frá í almenning eða ráðamenn.

Ef efnahagskerfið hrynur þá hafa margir sem báru ábyrgð brugðist.

Ef enginn ráðamaður segir af sér eftir slíkt hrun þá er ekki lengur bara efnahagskreppa, heldur lýðræðiskreppa. Lýðræðið hvílir á ábyrgð og ef samfélagið getur meira og minna fallið saman án þess neinn segi af sér þá var aldrei að marka grunngildið í lýðræðinu, það er að segja ábyrgðina sem réttlætir að ráðmenn séu fínt vel launað fólk. Ef enginn segir af sér eða er settur af eru allir ráðamenn ekki klæddir öðru en nýju fötum keisarans. Ef enginn sætir ábyrgð og afklæðist embætti sínu þýðir það að Alþingi hefur óvart heimilað nekt þingmanna.

Hið persónulega tengisamfélag sem er einn helsti orsakavaldurinn fyrir að það skorti gagnrýnið aðhald þannig að allt fór úr böndunum er líka aflið sem veldur því að enginn segir af sér eða er látinn fara þegar stór hluti kerfisins hrynur. Sem sagt, ef enginn fer þegar stór hluti kerfisins hrynur þýðir það að kerfisvandinn er enn þá ekki bara virkur heldur svo sprækur að hann er veruleikinn. Ef enginn fer þegar kerfið hrynur að stórum hluta þá eru skilaboð kerfisins að þetta sé bara eðlilegt áfall. Þá eru skilaboð kerfisins; kerfið er ekki ábyrgt. Það er sama og að segja að kerfið skipti engu máli. Það er hreint og klárt viðmiðunarleysi og tómhyggja og það er nýjung ef það er hlutverk stjórnvalda að ala á slíku ástandi. Í slíku ástandi hugsar enginn skýrt.

Þess vegna virkar lýðræðið ekki nema margir segi af sér við aðstæður sem þessar. Stjórn Seðlabankans er þar vitanlega ofarlega á blaði en í prinsippinu ætti að vera spurning með yfirmenn eftirlitsstofnana, forsætisráðherra, fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra og svo mætti lengi telja. Margir hafa lengi vitað hvert stefndi. Þótt þessir einstaklingar beri ekki ábyrgð á hruninu sem einstaklingar, fremur en nokkrir aðrir einstaklingar, þá eru þeir efstir í kerfi sem byggir á ábyrgð. Ráðamenn eru táknmyndir fyrir að við séum ábyrgt samfélag, og þess vegna verða einhverjir að segja af sér svo fólk hafi trú á lýðræðinu sem slíku. Ef það gerist ekki þá fer ástandið líka að lykta af valdníðslu, og það er allra síst þörf á að vandamálið verði ekki bara efnahagslegt heldur líka spurning um hvort lýðræðið virki yfir höfuð.

Ekki má gleyma að þótt menn segi af sér, eða séu settir af er mikið til um táknræna athöfn að ræða og eina sem gerist er að aðrir eru skipaðir í staðinn og áfram er hægt að rannsaka málin og bregðast við hlutunum.

Ef það sem hér hefur gerst hefði átt sér stað til dæmis í Frakklandi væri fyrir löngu búið að kveikja í þúsundum bíla, ekki vegna tryggingarpeninganna, heldur til að tjá reiði. Tölur yfir látna í þeim átökum væru sennilega algeng sjón. Það er Íslendingum til mikils hróss að hér skuli menn halda ró sinni. Það er hins vegar óheilbrigt ef hinn almenni maður sem ber nákvæmlega enga ábyrgð á ástandinu hættir að vera reiður nema einhver segi af sér eða sé látinn fara.

Það er hluti af lækningunni, hluti af því að endurreisa trú á lýðræðið, að menn segi af sér eða séu settir af. Því er sá ráðamaður sem segir af sér núna hetja sem hugsar um hag allra og mun ekki missa virðingu fyrir vikið. Þegar það hefur gerst skulum við óska viðkomandi velfarnaðar og skoða vandann sem það sem hann er. fyrst og fremst; hugmyndafræði -og kerfisvandi.

Höfundur er rithöfundur.




Skoðun

Sjá meira


×