Innlent

Vorum aðeins sex atkvæðum frá annarri atkvæðagreiðslu

Kristín Árnadóttir.
Kristín Árnadóttir.

Kristín Árnadóttir, sem stjórnað hefur framboði Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, segir Ísland langt því frá að vera óþekkta stærð þrátt fyrir að hafa ekki náð kjöri í öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Ísland sé með sterka utanríkisþjónustu og skoða verði hvernig hægt verði að nýta það tengslanet sem byggt hafi verið upp í þágu framtíðar Íslands.

„Þetta eru miki vonbrigði. Við höfðum vonast til þess að þetta yrði ekki svona afdráttarlaus niðurstaða í fyrstu umferð en svona fór," segir Kristín. Hún bendir á að það munaði aðeins sex atkvæðum að kosið yrði aftur. Austurríki fékk 133 atkvæði en 128 þurfti til þess að tryggja sér sætið. Hefði Austurríki fengið sex atkvæðum færra hefði þurft að kjósa á ný milli Austurríkis og Íslands. „Við vorum alltaf viss um að við kæmumst ekki inn í fyrstu umferð en við töldum okkur hafa góðan stuðning kæmi til annarrar umferðar," segir Kristín.

Töldu sig hafa vísan stuðning 110 ríkja

Hún bendir að Íslendingar hafi verið að reyna þetta í fyrsta skipti og forsvarsmenn framboðsins hafi tali sig vera með yfir 140 formlegar stuðningsyfirlýsingar við framboðið. „Við rýndum í þetta í samstarfi við hin norrænu ríkin og samkvæmt okkar mati áttu 110 ríki að vera mjög áreiðanleg þannig að þetta er minna en við höfðum búist við," segir Kristín en Ísland hlaut 87 atkvæði í dag.

Hún dregur ekki dul á það að atburðir liðinna vikna hafi gert baráttuna fyrir sætinu erfiðari. „Það má segja að við verðum fyrir hverju áfallinu á fætur öðru. Við erum búin að verjast fimlega á lokasprettinum og höfum þurft að svara fyrir efnahagsástandið og afstöðu Breta til okkar og gátum ekki merkt annað en að það væri mikill skilningur á stöðu okkar," segir Kristín.

Erum miklu stærri en höfðatalan segir til um

Hún bendir á að með framboðinu hafi Ísland viljað láta reyna á jafnræðisregluna hjá Sameinuðu þjóðunum og það hvort bæði stór og smá ríki gætu axlað ábyrgð á vettvangi samtakanna. Niðurstaðan hafi verið vonbrigði en það hefði engu að síður haft mikla þýðingu að takast á við verkefnið. „Við vorum að sá í akur en uppskárum ekki eins og við væntum en engu að síður eru fræ að skjóta rótum," segir Kristín. Ísland hafi verið vel kynnt og sé fjarri því óþekkt stærð í alþjóðasamfélaginu. „Ég held að þrátt fyrir þetta höfum við lagt vel inn til framtíðar litið og við séum miklu stærri og öflugri í hugum annarra ríkja heldur en höfðatalan segir til um," segir Kristín.

Aðspurð um kostnaðinn við framboðið segir Kristín að reynt hafi verið að halda honum í lágmarki og að hann fari vonandi aldrei yfir 380 milljónir króna. Ekki megi gleyma því að verulegur hluti af því hafi farið í að styrkja starf Íslands á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og því sé verið að búa í haginn fyrir framtíðina.

Höfum gert okkar besta

Aðspurð hvað taki nú við hjá hópnum sem unnið hafi að framboðinu segir Kristín að fulltrúar fastanefndarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum haldi sinni vinnu áfram en þeir sem komi úr ráðuneytinu haldi heim. Of snemmt sé að segja til hvað taki við hjá þeim. „Við erum með sterka utanríkisþjónustu, framsækna og nútímalega og þurfum að fara yfir það hvernig við nýtum þá þekkingu og það tengslanet sem orðið hefur til í þágu framtíðar Íslands. Við erum ánægð með það hvernig við höfum unnið og höfum gert okkar besta og erum kinnroðalaus hvað það varðar," bætir Kristín við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×