Skoðun

Dýpkum ekki kreppuna

Sérfræðingar alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) hafa kynnt áform um aðhaldssama stjórn peningamála til að koma á stöðugleika í gengi krónunnar. Aðgerðir sem leiða til vaxtahækkunar eru dæmigerð viðbrögð IMF við fjármálakreppu, þrátt fyrir mörg dæmi um að vaxtahækkun dýpki kreppur. Vaxtahækkun við núverandi aðstæður mun bitna hart á fyrirtækjum og almenningi í landinu.

Í fyrirlestri sem dr. Erling Steigum prófessor hélt nýlega við HÍ kom fram að vextir hefðu verið of háir í fjármálakreppunni sem reið yfir Noreg í byrjun tíunda áratugarins. Hátt vaxtastig dýpkaði kreppuna í Noregi, fleiri fyrirtæki urðu gjaldþrota og atvinnuleysi jókst meira en ella. Norsk stjórnvöld hækkuðu auk þess skatta til að koma á jafnvægi í ríkisrekstrinum sem jók enn frekar á samdráttinn.

Gripið er til vaxtahækkunar í þeirri veiku von að hækkunin dragi úr fjármagnsútstreymi og þar með enn frekari gengislækkun. Suður-Kórea fékk lán frá IMF árið 1997 með skilyrðum sem leiddu m.a. til hækkunar vaxta og skatta. Það kom hins vegar ekki í veg fyrir enn frekari gengislækkun wonsins sem lækkaði um 49% gagnvart Bandaríkjadollar. Lönd eins og Síle og Malasía takmörkuðu markvisst útstreymi fjármagns í stað þess að hækka vexti í kjölfar banka- og gjaldeyriskreppu á tíunda áratugnum. Fjármálakreppan varð ekki jafn djúp í þessum löndum og í vaxtahækkunarlöndunum.

Fjármálakreppan á Íslandi er mun alvarlegri en Norðurlöndin og Asíulöndin fóru í gegnum á tíunda áratugnum, sem sést meðal annars á stærð lánsins frá IMF og samstarfslöndum. Reiknað er með að lánið sé um 50% af vergri landsframleiðslu (VLF) en lánið til Suður Kóreu nam aðeins um 10% af VLF landsins. Því er ljóst að kreppan verður mun dýpri hér á landi en í þessum löndum og því þurfa íslensk stjórnvöld að tryggja að skilyrði um aðhaldssama peningastjórn IFM dýpki hana ekki. Reynsla annarra landa sýnir að takmarkanir á útstreymi fjármagns í formi hafta eða skattlagningar er vænlegri til árangurs en vaxtahækkun. Nauðsynlegt er að grípa til aðgerða sem auka ekki enn frekar örvæntingu almennings.

Höfundur er hagfræðingur við HÍ.




Tengdar fréttir

Í spíks gúdd hingliss

Fyrir nokkru bárust út þau tíðindi af hinum umsvifamikla franska utanríkisráðherra Bernard Kouchner, að hann hefði lýst því yfir í viðtali við blaðið „Haaretz", að Íranar myndu aldrei eignast kjarnorkuvopn því áður en til nokkurs slíks kæmi myndu Ísraelsmenn „éta Íran".




Skoðun

Sjá meira


×