Skoðun

Ísland og IMF

Gunnar Tómasson skrifar

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) var stofnaður 1945 til „að efla alþjóðlega samvinnu í peningamálum" og vera vettvangur fyrir „ráðaleitun og samstarf" við stjórn slíkra mála. Ísland hefur verið aðili að sjóðnum frá upphafi og átt gott samstarf við hann.

Hagkerfi heims hefur gjörbreyst síðan 1946 og hið sama gildir um viðfangsefni IMF innan þess ramma sem var markaður í upphafi. En IMF hefur vitaskuld orðið á mistök. Til dæmis er aðsteðjandi kollsteypa í alþjóðafjármálum áfellisdómur yfir ýmsum hugmyndum nýfrjálshyggju sem hafa mótað starf og stefnu IMF og Alþjóðabankans um langt árabil en hljóta nú að verða endurskoðaðar.

Fyrir helgi taldi Geir Haarde ólíklegt að Ísland myndi leita aðstoðar IMF en útilokaði það ekki. Ef til kæmi myndi aðstoðin felast í (a) gjaldeyrisláni til nokkurra ára og (b) ráðgjöf í peninga-, ríkisfjár- og gengismálum með endurheimt jafnvægis í hagkerfi Íslands innan 3-5 ára að markmiði. Sendinefnd IMF sem heimsótti Ísland 2006 tók djúpt í árinni varðandi stefnu stjórnvalda í peningamálum og sagði útlánaþenslu bankanna vera hrikalega (staggering).

Í Morgunblaðsgrein 30. maí 2006 (Hvar liggur ábyrgðin?) vék höfundur að umsögn IMF sem hér segir: „Undirritaður starfaði sem hagfræðingur hjá IMF um nær aldarfjórðungsskeið en minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma séð hagfræðinga IMF nota jafn sterkt orð og „staggering" til þess að lýsa útlánaþenslu viðskiptabanka í aðildarríki. Samkvæmt leikreglum þar á bæ er oft ritað og lesið milli lína það sem segja þarf. Það fer því ekki fram hjá neinum í IMF hvað sendinefndinni finnst um verðbólguhorfur á Íslandi - þær eru „staggering"."

Ef stjórnvöld hefðu gefið aðvörun IMF gaum og gert viðeigandi breytingar á peninga-, ríkisfjár- og gengismálum væri staðan núna betri en hún er. Eins má telja fullvíst að ofangreind aðstoð IMF myndi reynast íslenskri þjóð happadrjúg á komandi tíð.

Höfundur er hagfræðingur.






Skoðun

Sjá meira


×