Handbolti

Kiel svo gott sem meistari eftir tap Flensburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander Petersson í leik með Flensburg.
Alexander Petersson í leik með Flensburg. Nordic Photos / Bongarts

Kiel er svo gott sem orðið þýskur meistari í handbolta eftir að helstu keppinautar þeirra um titilinn, Flensburg, tapaði fyrir Magdeburg á útivelli í dag.

Tap Flensburg þýðir að Kiel er með þriggja stiga forystu á Flensburg þegar tvær umferðir eru eftir. Kiel þarf því að sigra annað hvort Göppingen eða Wetzlar í síðustu tveimur viðureignunum til að tryggja sér titilinn.

Kiel hefur aðeins tapað þremur leikjum í vetur en þetta var fjórða tap Flensburg. Magdeburg vann leikinn með fjögurra marka mun, 32-28.

Alexander Petersson og Einar Hólmgeirsson skoruðu eitt mark hver fyrir Flensburg í leiknum.

Kiel spilar ekki í deildinni um helgina þar sem það mætir Ciudad Real í fyrri viðureign liðanna í úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

Lemgo vann tveggja marka sigur á Lübbecke, 33-31. Logi Geirsson skoraði fjögur mörk fyrir Lemgo en Birkir Ívar Guðmundsson var í leikmannahópi Lübbecke í dag.

Þá gerðu Wilhelmshaven og Grosswallstadt jafntefli, 30-30. Gylfi Gylfason skoraði tvö mörk fyrir Wilhelmshaven en markahæstur í því liði var Sven Christopherson sem skoraði átján mörk fyrir Wilhelmshaven.

Göppingen vann útisigur á Essen, 30-27, og skoraði Jaliesky Garcia sex mörk fyrir fyrrnefnda liðið.

Lemgo er nú jafnt Gummersbach að stigum en liðin eru í 6.-7. sæti deildarinnar og eiga engan möguleika að ná Nordhorn, sem er í fimmta sæti, að stigum.

Útlitið er dökkt fyrir Íslendingaliðin Lübbecke og Wilhelmshaven en liðin eru í botnsætum deildarinnar með fjórtán stig hvert. Essen er í þriðja neðsta með fimmtán stig og Minden í því fjórða neðsta með sextán.

Tvö neðstu liðin falla en þriðja neðsta tekur þátt í umspilskeppni ásamt liði úr annarri deildinni um laust sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×