Erlent

Bush lýsti yfir neyðarástandi í Texas

Fjórða stærsta borg Bandaríkjanna, Houston í Texas, var sem lömuð í dag þegar fellibylurinn Ike reið yfir. Engar fréttir hafa borist af mannskaða en gífurleg flóð eru á þéttbýlissvæðum sem fellibylurinn fer nú um. Rafmagn fór af heimilum þriggja milljóna manna. Bush Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir neyðarástandi í Texas.

Ike var annars stigs fellibylur þegar hann gekk á land við Galveston, borg sem er byggð á sandrifjum undan ströndum Texas.

Sjávargangurinn færði fimm metra háan brimvarnagarð í kaf. Garðurinn var byggður eftir að átta þúsund manns létu lífið í ofsaveðri fyrir rúmum eitt hundrað árum. Vítt og breitt um strandhéruð Texas liggur vatn yfir þéttbýlissvæðum.

Björgunarsveitir notuðu þyrlur til að ná fólki úr sjálfheldu áður en mesta rokið skall á. Um milljón manns flúði mestu hættusvæðin en aðrir kúldruðust á tiltölulega öruggum stöðum í húsum sínum.

Um 80 kílómetra inni í landi barði rokið skýjakljúfana í Houston, þar sem fjórar milljónir manna búa. Rúður brotnuðu meðal annars í Chase turninum, sem er 75 hæðir. Þegar Ike náði til Houston var hann orðinn fyrsta stigs fellibylur. Hann er nú á leið norður eftir Texas og verður kominn inn í Arkansas í kvöld.

Olíufyrirtæki stöðvuðu vinnslu í þrettán olíuhreinsistöðvum og alls var skrúfað fyrir fimmtung af olíuvinnslu Bandaríkjamanna vegna veðursins.

Í Galveston eru björgunarmenn nú komnir aftur til starfa - en þeirra vinna lá niðri á meðan mesta ofsaveðrið gekk yfir í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×