Skoðun

Skemmri og lengri tíma lausnir á gjaldeyrisvanda

Heiðar M. Guðjónsson og Ársæll Valfells skrifa um gjaldeyrismál

Alþingi Íslands setti á mjög ströng gjaldeyrishöft í síðustu viku og fól Seðlabanka Íslands framfylgd þeirra. Það var látið fylgja að þessar aðgerðir væru með vilja Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Til skamms tíma geta áhrifin verið jákvæð. Gengi krónunnar getur styrkst umtalsvert, sem lækkar verðbólgu og minnkar afborganir og höfuðstól erlendra lána mælt í krónum.

Útflutningur býr til hagvöxt framtíðarinnar
Ársæll Valfells
Útflutningur greiðir fyrir innflutning og ef enginn er útflutningurinn er ljóst að sjálfsþurftarbúskap þarf til í landinu. Það fer því ekki á milli mála hve mikilvægur útflutningsiðnaðurinn er. Útflutningsgreinar á Íslandi hafa kvartað undanfarin ár yfir sveiflum í gengi krónunnar og háu gengi hennar. Nú hefur krónan lækkað og með núverandi höftum munu sveiflurnar temprast mjög en á móti kemur að fyrirtækin geta ekki lengur hagað rekstri sínum að vild. Þau geta ekki sótt sér erlent fé til fjárfestinga, né heldur aukið umsvif sín utan landsteinanna. Það er ljóst að ef á að hefta útflutningsgreinar er hættan alltaf sú að þau alþjóðlegu fyrirtæki hverfi annað. Menn vita hvað gerist ef þeir reyna að kreista blautt sápustykki, það skýst annað. Hvað áttu spákaupmenn og hvað eiga þeir nú?

Höftin hafa verið kynnt sem nauðsynleg sökum þess hve margar krónur erlendir spákaupmenn eiga og vilji selja til að forðast frekara tapi. Það eru þó áhöld um það hve fjárhæðin er raunverulega mikil. Fyrir neyðarlögin í byrjun október var staða útlendinga með krónunni um 1.000 milljarðar króna samkvæmt Seðlabankanum, þar af um 200 milljarðar í gegnum ríkisbréf og innistæðubréf, en yfir 75% fjárhæðarinnar voru með afleiðusamningum við gömlu bankana, sem nú eru komnir í þrot. Það má því sjá að við uppskipti bankanna færðist stærsti hluti stöðunnar inn í þrotabúin. Þar fyrir utan voru stórar stöður hjá erlendum spákaupmönnum, stórum vogunarsjóðum, á móti krónunni og þeir samningar voru mest gerðir við stærstu alþjóðlegu bankana, sem síðan aftur gerðu samninga við hina íslensku. Það eru 3 viðskiptavakar með gjaldeyri á Íslandi, stóru bankarnir sem nú eru í eigu ríkisins. 100 stærstu viðskiptavinir hvers banka voru með um 95% af krónuviðskiptum þeirra.

Síðan áttu stærstu viðskiptavinirnir viðskipti við alla þrjá bankana, þannig að hópurinn er á milli 100 og 200 viðskiptavinir, sem fyrir liggur hvað áttu og hvað skulduðu í krónum. Það er ekki flókið í núverandi umhverfi fyrir Seðlabankann að kortleggja nákvæmlega hver staðan er í dag með krónunni. Það ætti að taka einn til tvo vinnudaga. Það er hægt að para saman það sem er útistandandi sem undirritaðir telja að sé talsvert lægri fjárhæð en oft er kastað fram í umræðunni. Við áætlum að hrein staða sé um 200 milljarðar en Seðlabankanum er í lófa lagt að koma fram með nákvæma tölu.

Kjörinn vettvangur til þess að skipta um mynt

Það er ljóst að núverandi ástand getur ekki varað lengi. Ef svo væri myndi útflutningur leggjast af og landið yrði fjársvelt og sjálfu sér nægt, sem eru lífsskilyrði sem Íslendingar hafa sífellt reynt að forðast í hagsögunni. Að hafa bæði gjaldeyrishöft og næstum 20% vexti er einstaklega óheppilegt, svo ekki sé meira sagt.

Útflutningur eykst mjög við upptöku annarrar myntar á Íslandi. Mat Seðlabankans er að um þriðjungsaukning eigi sér stað. Það er ekki flókið að finna hið rétta gengi fyrir útflutninginn enda eru um 20 fyrirtæki á Íslandi ábyrg fyrir yfir 80% útflutningsverðmætanna.

Fjárfesting erlendra aðila myndi einnig stóraukast, en þar skiptir miklu máli að selja ekki eignir landsmanna á undirverði, líkt og nú er gagnrýnt í Finnlandi að hafi gerst þegar erlendir aðilar keyptu stóra hluti í Nokia á mjög lágu verði í kjölfar efnahagskreppunnar þar í landi. John Greenwood, faðir Hong Kong dollarsins, sem var á Íslandi í síðustu viku sagði frá því hvernig þeir hefðu látið gjaldmiðillinn styrkjast á nánast engum viðskiptum, áður en þeir festu hann, til þess að erlendir aðilar myndu ekki geta keypt eignir landsins á útsölu. Þeir styrktu gengið um nálægt 20% í því skyni.

Í kjölfar núverandi laga er nauðsynlegt að finna lengri tíma lausn á gjaldeyrisvanda þjóðarinnar. Það er óráð að láta krónuna fljóta aftur enda hefur gjaldmiðillinn sannað veikleika sína svo um munar. Besti kosturinn í stöðunni er einhliða upptaka annarrar myntar því einstakt tækifæri liggur nú á borðinu við að ákvarða hagstætt gengi gjaldmiðilsins til framtíðar.

Nýr gjaldmiðill gefur fyrirheit um nýja tíma

Með upptöku nýrrar myntar, sem gæti t.d. gerst 1. febrúar 2009, myndi vaxtastig lækka mjög mikið, þó að til byrja með yrði það alltaf hærra en gerist í heimalandi myntarinnar. Reynslan er sú sama alls staðar, aðlögun að nýju vaxtaumhverfi gerist hratt. Með lækkandi vöxtum yrðu stoðir reistar undir fasteignamarkaðinn og atvinnulífið í landinu fengi samkeppnishæft starfsumhverfi. Nýsköpun myndi stóreflast því aðgengi að fjármagni myndi aukast og vextir á áhættufé lækka. Vöruverð yrði að fullu samanburðarhæft á milli landa til hagsbóta fyrir neytendur og fyrirtæki.

Erlend fjárfesting myndi stóreflast og erlendir bankar myndu fjárfesta í íslenskum bönkum eða opna útibú á Íslandi. Opnað yrði á alþjóðlega fjárfestingu í flestum starfsgreinum landsins í kjölfarið. Ísland yrði þar með aftur fullgildur þátttakandi í heimsvæðingunni.

Ísland hefur átt við langvarandi vanda að stríða, gjaldeyrisvandann. Í dag er búið að létta á honum tímabundið, en gjaldeyrishöftin geta aukið vandann ef þau halda ekki þeim mun skemur, og langtímalausnin liggur á borðinu. Núverandi ástand eru kjöraðstæður fyrir einhliða upptöku annarrar myntar.

Heiðar M. Guðjónsson er framkvæmdastjóri Novator. Ársæll Valfells er lektor við Viðskiptadeild HÍ.




Skoðun

Sjá meira


×