Körfubolti

Ótrúlegur sigur Spánverja í framlengingu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
NBA-stjörnurnar Yao Ming og Pau Gasol eigast hér við.
NBA-stjörnurnar Yao Ming og Pau Gasol eigast hér við. Nordic Photos / AFP
Spánn vann frábæran sigur á Kínverjum í keppni í körfubolta í karla á Ólympíuleikunum í Peking.

Framlengja þurfti leikinn eftir að Spánverjar höfðu unnið upp fjórtán stiga forskot Kínverja í fjórða leikhluta. Juan Navarro gerði það með þriggja stiga skoti þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma.

Kínverjar héldu svo í sókn þegar nítján sekúndur voru eftir og staðan 72-72 en Ricky Rubio náði þá að stela boltanum af Liu Wei þegar sex sekúndur voru eftir. Spánverjar náðu þó ekki að tryggja sér sigurinn í síðustu sókn fjórða leikhluta.

Þeir gengu hins vegar á lagið í framlengingunni og unnu að lokum tíu stiga sigur, 85-75. Úrslitin eru mikil vonbrigði fyrir Kínverja sem töpuðu fyrir Bandaríkjunum í fyrstu umferð riðlakeppninnar.

Pau Gasol skoraði 29 stig fyrir Spánverja og Rudy Fernandez 21. Liu Wei skoraði nítján stig fyrir Kína en Yao Ming náði sér ekkki á strik og skoraði ellefu stig.

Þá vann Grikkland sigur á Þýskalandi, 87-64, og Evrópumeistarar Rússa töpuðu fyrir Króatíu, 85-78. Þá vann Litháen stórsigur á Íran, 99-67.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×