Skoðun

Rannsóknir á kynferðis- og heimilisofbeldi

Stefna lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur frá stofnun embættisins verið að auka öryggi og öryggistilfinningu íbúa. Til þess að vinna að þessum mikilvægu markmiðum hefur verið horft til nokkurra lykilatriða á sviði löggæslu, eins og t.d. aukins sýnileika lögreglu og öflugrar hverfa- og grenndarlöggæslu. Þegar kemur að rannsóknum sakamála er að því unnið að auka gæði og skilvirkni rannsókna með ýmsum hætti, þar á meðal aukinni sérhæfingu og markvissri greiningarvinnu. Þessir þættir ásamt mörgum öðrum skipta miklu máli ef árangur á að nást.

Lögreglan og raunar réttarkerfið í heild hefur á liðnum árum verið gagnrýnt fyrir frammistöðu sína vegna meðferðar kynferðisbrotamála. Þessi gagnrýni hefur að mörgu leyti verið réttmæt. Til þess að auka gæði og skilvirkni á þessu sviði sérstaklega var við stofnun LRH ákveðið að setja á laggirnar sérstaka rannsóknardeild sem hefði það hlutverk að rannsaka kynferðisbrot. Það var mat embættisins að með stofnun sérstakrar rannsóknardeildar mætti bæði auka gæði og skilvirkni rannsókna á þessu flókna og erfiða sviði og um leið tiltrú almennings og einkum þolenda kynferðisbrota á getu og áhuga lögreglu til að takast á við rannsóknir þessara alvarlegu brota. Margt bendir til að það hafi gengið eftir.

Hjá LRH er nú unnið að endurskoðun á skipulagi rannsóknardeildar embættisins, í samræmi við stefnu embættisins og með hliðsjón af gildistöku nýrra laga um meðferð sakamála. Í þeirri vinnu er m.a. horft til aukinnar sérhæfingar á ýmsum sviðum, aukinnar samvinnu milli eininga og aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Eitt af því sem nú er til skoðunar er að auka áherslu embættisins á rannsóknir heimilisofbeldismála, m.a. með það að markmiði að grípa mun fyrr til aðgerða en áður á þessu viðkvæma og mikilvæga sviði. Markmið slíkra breytinga er að koma í veg fyrir áframhaldandi heimilisofbeldi, auka gæði og skilvirkni rannsókna og um leið tiltrú almennings á lögreglu. Vonir standa til að tillögur að nýju skipulagi verði kynntar dóms- og kirkjumálaráðherra um næstu áramót og breytingar á skipulagi taki í kjölfarið þegar gildi.

Höfundur er lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu.



Skoðun

Sjá meira


×