Viðskipti innlent

Íslensk stjórnvöld biðja Norðurlönd um 500 milljarða kr. í dag

Íslenska stjórnin vonast til að hin Norðurlöndin samþykki lán til Íslands upp á 4 milljarða dollara eða sem svarar tæplega 500 milljörðum kr.. Málið verður rætt á fundi forsætisráðherra landanna í Helskinki síðdegis í dag.

Töluvert er fjallað um málið í erlendum fjölmiðlum í morgun. Reuters fréttastofan vitnar í viðtal við Geir Haarde forsætisráðherra í stærsta dagblaði Finnlands, Helsingin Sanomat. Þar segir Geir að erfitt sé að nefna nákvæma upphæð fyrir fundinn en..."staðan væri góð ef við fengjum 4 milljarða dollara eða meira," segir hann.

Financial Times fjallar einnig um málið undir fyrirsögninni "Ísland bindur vonir við nágrannana". Þar segir að norrænar ríkisstjórnir hafi áður sagst vera reiðubúnir að aðstoða Ísland en vildu fyrst að Íslendingar tryggðu sér aðstoð frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

"Lánin gætu hjálpað til við að endurreisa pólitíska framtíð Geir Haarde forsætisráðherra Íslands sem er undir vaxandi þrýstingi heimafyrir um að segja af sér og taka ábyrgð á kreppunni," segir í Financial Times.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×