Viðskipti innlent

Segir stöðu VBS góða þrátt fyrir erfiðleika á byggingarmarkaði

MYND/GVA

Jón Þórisson, forstjóri VBS fjárfestingarbanka, segir stöðu félagsins góða þrátt fyrir að félagið hafi lánað nokkuð til framkvæmda á byggingarmarkaði þar sem nú ríkir nánast algjör stöðnun.

Eins og fram hefur komið í fréttum er mikið af óseldum eignum í nýbyggingum víða á höfuðborgarsvæðinu og þá ríkir mikil óvissa um framhaldið á byggingarmarkaði. Tíðar fregnir hafa borist af uppsögnum hjá verktökum og standa stór fyrirtæki á byggingarmarkaði höllum fæti.

Jón Þórisson, forstjóri VBS, segir félagið hafa lánað nokkurt fé til byggingarframkvæmda en það hafi fyrst og fremst verið til smærri verktaka sem hafi verið í smærri verkefnum.

„Við höfum verið með módel um fjármögnun á framkvæmdatíma og það vill okkur til happs að við lánuðum til framleiðslu á mannvirkjum en ekki til hlutabréfakaupa. Menn hafa verið að fjármagna kaup á hlutabréfum sem nú eru verðlaus en húsin standa enn þá," segir Jón. Hann segir enn fremur að það muni taka eitthvað lengri tíma að selja fasteignirnar en ýmsir möguleikar séu í stöðunni fyrir verktakana, þar á meðal leiguíbúðafyrirkomulag og verktakalán frá Íbúðalánasjóði.

Aðspurður hvaða áhrif hugsanleg gjaldþrot verktaka muni hafa á stöðu VBS segir Jón að bankinn hafi veð í framkvæmdum sem hann hafi lánað til. Vissulega sé óþægilegt þegar hikst verði á markaðnum en „við höfum horft á verkin og gætt þess að þetta séu sölulegar eignir," segir Jón.

VBS hefur selt fólki veðskuldabréf með veði í framkvæmdum sem lánað hefur verið fyrir en Jón telur ekki að sá hópur muni tapa á fjárfestingu sinni. Menn séu vissulega í anddyri mikilla erfiðleika í samfélaginu og þá taki lengri tíma að selja fasteignir. Ekki hafi verið lánað til nýrra verkefna og verið sé að klára þau verkefni sem lánað hafi verið til. Þau muni dragast eitthvað en VBS muni gæta hagsmuna þeirra sem fjárfest hafi slíkum veðskuldabréfum. „Hér er fjöldi fólks að halda utan um verkefnin og tryggja hagsmuni þessara fjárfesta," segir Jón.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×