Viðskipti innlent

Einkaneysla hrynur

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ekki hefur áður sést meiri viðsnúningur í viðskiptahalla en gerðist 2007, að því er Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnhagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir.
Ekki hefur áður sést meiri viðsnúningur í viðskiptahalla en gerðist 2007, að því er Þorsteinn Þorgeirsson, skrifstofustjóri efnhagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins segir. Markaðurinn/VAlli
Hrun einkaneyslu og samdráttur í íbúðarbyggingum leiðir til 0,7 prósenta samdráttar efnahagslífsins á næsta ári. Reiknað er með að einkaneysla dragist saman um sex prósent. Í ár er ráð fyrir því gert að hagvöxtur verði hálft prósent og einkaneysla dragist saman um 1,1 prósent. Í fyrra var hagvöxtur 3,8 prósent.

Yfirstandandi samdráttarskeið á margt sammerkt með samdrætti sem varð í byrjun áratugarins, en árið 2010 er spáð hagvexti á ný, að sögn Þorsteins Þorgeirssonar, skrifstofustjóra efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins. Ráðuneytið kynnti í gær nýja þjóðhagsspá fram til 2013 sem er heldur bjartari en spá Seðlabanka Íslands í Peningamálum fyrir helgi. Þar er gert ráð fyrir samdrætti hagvaxtar upp á 2,5 prósent á næsta ári og 1,5 prósent á því þarnæsta.

Þorsteinn segir hagvöxt í fyrra hafa verið meiri en ráð var fyrir gert og það þrátt fyrir þann óróleika sem brast á á fjármálamörkuðum. „Í ár spáum við aðeins hálfs prósents hagvexti," segir hann, en þar styður við vöxt stóraukinn álútflutningur, sem eykst um meira en 70 prósent frá fyrra ári. „Það sem dregur hagvöxtinn niður er að fjárfesting dregst hressilega saman milli ára vegna þess að stóriðjufjárfestingum er að mestu lokið." Samdráttur þjóðarútgjalda í ár er sagður nema 2,3 prósentum vegna samdráttar í einkaneyslu og íbúðar- og atvinnuvegafjárfestingu. „Þetta er þrátt fyrir álversframkvæmdir í Helguvík sem hefjast á árinu, en í við tökum í fyrsta sinn tillit til þeirra í þessari spá."

Hratt dregur úr viðskiptahalla þjóðarbúsins sem nú mælist 15,5 prósent af landsframleiðslu. „Hann verður ennþá nokkur í ár, eða 13,2 prósent, en síðan minnkar hann hratt 2009 og 2010 þegar hann verður kominn í 6,6 prósent. Í langtímaspá til 2013 fer hann svo niður í 2,5 prósent þannig að við erum á réttri leið. Hvað þetta varðar hjálpa okkur þessar fjárfestingar í álframleiðslu."

Atvinnuleysi er sagt munu aukast í ár og verður tæp tvö prósent af mannafla þjóðarinnar. Árið 2010 er gert ráð fyrir 3,5 prósenta atvinnuleysi. Þorsteinn bendir um leið á að atvinnuleysi milli 3,0 og 3,5 prósent sé talið samræmast verðstöðugleika og oft kallað jafnvægisatvinnuleysi.

Á þessu ári er gert ráð fyrir 8,3 prósenta verðbólgu, aðallega vegna falls krónunnar, en að 4 prósenta lækkun nafnvirðis fasteigna á árinu dragi úr verðbólguáhrifunum. Seðlabankinn spáir 30 prósenta samdrætti húsnæðisverðs fram til 2010, en fjármálaráðuneytið metur áhrifin á sama tíma 16 til 17 prósent.

Verðbólgumarkmiði verður samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins náð árið 2010, en einnig er gert ráð fyrir því að kjarasamningar opinberra starfsmanna verði hóflegir. „Og jafnvel þótt komi til nýrra samninga á almennum markaði á næsta ári vegna verðlagsákvæða verði hófs líka gætt þar þannig að við stöndum ekki frammi fyrir varanlega aukinni verðbólgu."

Þorsteinn áréttar samt að spá ráðuneytisins sé mikilli óvissu háð, bæði hvað varði þróun á alþjóðavísu og einnig um mögulegar framkvæmdir aðrar hér. Í fráviksspá þar sem gert er ráð fyrir stækkun álvers Alcan í Straumsvík, álveri Alcoa á Bakka, og tveimur kísilhreinsiverksmiðjum í Þorlákshöfn, er þannig gert ráð fyrir allt að 1,5 prósenta meiri hagvexti árin 2009 til 2011 en ella væri. Vegna slaka í efnahagslífinu árin 2009 til 2010 segir Þorsteinn aukninguna myndu rúmast innan þess framleiðsluslaka og vera viðráðanlegt fyrir hagkerfið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×