Erlent

Flett ofan af rangfærslum um ferðir Palin

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/AP

Sarah Palin heimsótti aldrei bandaríska hermenn í Írak eins og einn aðstoðarmanna hennar í Alasaka lét í veðri vaka við fjölmiðla. The Boston Globe greindi frá því á laugardag, eftir að hafa rætt við aðra aðstoðarmenn hennar og yfirmenn í þjóðavarðaliði Alaska, að Palin hefði farið til Kuwait en aldrei farið lengra en að landamærum Íraks.

Heimsókn til Írlands reyndist einnig vera á misskilningi byggð en flugvél sem flutti Palin reyndist þó hafa lent þar til að taka eldsneyti. „Bandaríkjamenn hljóta að velta því fyrir sér hvort það sé eitthvað sem McCain-teymið sé ekki að ljúga um," sagði Tommy Vietor, einn talsmanna demókrataframbjóðandans Baracks Obama, en Demókratar hafa verið ötulir við að saka mótherja sína um lygar og rangfærslur í auglýsingum og framboðsræðum.

Meðal þess sem þeir saka þá um er að ýkja um fjölda gesta á samkomum sem McCain og Palin koma fram á. Þessu hafa McCain-menn hafnað og segjast einungis gefa út þær tölur sem yfirvöld láti þeim í té eftir samkomurnar.

Talsmenn Palin hafa nú lagst í ítarlega skýrslugerð um ferðalög hennar og meðal annars sent frá sér þær upplýsingar að hún hafi farið í frí til Mexíkó og opinbera heimsókn til Kanada.

CNN greindi frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×