Erlent

Vilja takmarka aðgang að klámi í flugvélum

MYND/AP

Notkun farþega American Airlines á klámefni er farin að fara verulega fyrir brjóstið á flugliðum og hafa samtök þeirra nú beðið flugfélagið að takmarka klámaðgang í flugi.

„Kaffi, te eða klám?" spyrja forsvarsmenn Samtaka atvinnuflugliða og hæðast þannig góðlátlega að umkvörtunarefninu sem skjólstæðingar þeirra telja orðið grafalvarlegt mál.

American Airlines eru ásamt nokkrum öðrum flugfélögum á fljúgandi siglingu að gera tilraun með þráðlausan netaðgang um borð í vélum sínum. Er um nokkurra mánaða tilraun að ræða en viðbrögðin láta ekki standa á sér, að minnsta kosti ekki frá flugliðunum.

Þeir telja notkun farþega á klámefni keyra algjörlega úr hófi fram og nú sé svo komið að starfsólkið megi vart búa við þennan nýja vágest í háloftunum. Krefjast þeir þess að klámsía verði sett á þráðlausa netaðganginn og rökstyðja það með þeirri miklu nálægð sem takmarkað pláss farþegarýmisins skapi.

Í raun sé verið að bjóða sessunautum og starfsfólki um borð upp á klámið í leiðinni. Talsmenn American Airlines láta sér þó fátt um finnast og spyrja á móti hver munurinn sé á þessu og því að flugfarþegi skoði klámblað sem hann hefur haft með sér um borð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×