Lífið

Umboðsmaður UMTBS í haldi

Stutt í fyrstu plötu UMTBS Nema verksmiðjan brenni til grunna.
Stutt í fyrstu plötu UMTBS Nema verksmiðjan brenni til grunna.
Það gengur allt annað en þrautalaust fyrir Ultra Mega Technóbandið Stefán (Umtbs) að koma út fyrstu plötunni sinni. Það hefur allt gengið á afturfótunum og síðasta áfallið reið yfir þegar umboðsmaður hljómsveitarinnar var settur í gæsluvarðhald.

„Við vöknuðum nú bara einn morguninn og sáum þetta í blöðunum,“ segir Sigurður Á. Árnason Olsen, söngvari Umtbs og aðallagahöfundur. Eins og komið hefur fram á Vísi verður Þorsteinn Kragh, umboðsmaður sveitarinnar, í gæsluvarðhaldi til 24. júlí fyrir meinta aðild að smygli á 190 kílóum af hassi og fleiru sem fannst í húsbíl um borð í Norrænu. Þorsteinn hafði hrifist af tónlist strákanna og hafði ýmsar metnaðarfullar áætlanir fyrir hönd hljómsveitarinnar. Meðal annars hafði hljómsveitin verið á forsíðu Myspace.

„Allt í kringum þessa plötu minnir á sápuóperu sem er lengri en Leiðarljós, allt sem hefur getað klikkað hefur klikkað,“ segir Sigurður og dæsir. Nú er platan loksins komin í framleiðslu erlendis. „Eins lengi og verksmiðjan brennur ekki – sem væri alveg eftir öðru – get ég lofað að platan kemur út núna í júlí. Við erum orðnir mjög spenntir en um leið stóískir.“

Umtbs vakti mikla athygli í fyrra fyrir lagið Story of a Star og stóra platan, Circus, átti upphaflega að koma út í febrúar.

„Okkur fannst platan bara ekki tilbúin þá. Við viljum skapa alveg nýtt sánd og erum haldnir fullkomnunaráráttu. Við bættum alls konar rugli við og sjáum ekki eftir því í dag, þetta er frábær plata. Við erum að sameina pönkið og diskóið á súrrealískan og vandaðan hátt. Við erum alveg hressir enn þá, en líka fágaðir.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.