Skoðun

LÍN mismunar skiptinemum

Haukur Logi Karlsson skrifar

Gengissveiflur krónunnar hafa umsvifalaus áhrif á námsmenn í útlöndum á framfæri ríkissjóðs. Þeir þurfa því annað hvort að stinga nýtt gat í sultarólina eða fá frekari fyrirgreiðslu hjá bankanum. Þessi sveifla hefur ekki sérstök áhrif á suma, þar sem við gerum upp yfirdráttinn við bankann í lok annar með láni frá LÍN, sem reiknað er út frá gjaldmiðli námslandsins miðað við útborgunardag.

Í sumar rak ég mig á að þessi eðlilega gengistrygging nær ekki til allra. Samviskusamlega las ég úthlutunarreglur LÍN og óskaði eftir því í kjölfarið að gert yrði upp við mig samkvæmt því sem gildir um námsmenn erlendis. Um hæl var mér boðið að fá lánið borgað miðað við gengi gjaldmiðilsins 1. júli árinu á undan. Þetta þýddi í reynd að mér var boðið að fá lán á genginu 8,9 ÍSK, þegar gengi sænsku krónunnar yfir önnina var á bilinu 12,5-13,5 ÍSK.

Skýringin hjá LÍN var vísun í óbirta reglu um að skiptinemar fengju ekki sams konar gengistryggingu og námsmenn erlendis. Efnisleg rök fengust ekki fyrir þessari mismunandi afgreiðslu en regluna er nú búið að birta í uppfærðum úthlutunarreglum LÍN. Skiptinemar á þessu skólaári fá því lán sem miðar við gengi krónunnar þann fyrsta júlí í sumar, og munu væntanlega þurfa að taka gengisfallið í haust á sig. Sjálfur hef ég verið hækkaður í tign hjá LÍN, telst nú alvöru námsmaður erlendis og fæ því gengistryggingu.

Áhugavert væri að vita hvort umboðsmaður Alþingis telji þetta standast jafnræðisreglu. Ég fæ ekki séð að námsmaður erlendis hafi aðra þörf fyrir gengistryggingu sem námsmaður en skiptinemi.

Þótt nýlegar víkingaferðir Íslendinga hafi endað sneypulega má ekki gleyma því að þúsundir Íslendinga eru í annars konar útrás sem gæti reynst þjóðinni drjúg búbót þegar fram í sækir. Það á að vera forgangsverkefni LÍN, eða umboðsmanns Alþingis, að leiðrétta stöðu þeirra hundruða skiptinema sem nú eru við nám um allan heim og gera hana sambærilega við stöðu annara námsmanna erlendis. Hrun krónunnar má ekki leiða til þess að næsta kynslóð Íslendinga verði eintómir heimalningar.

Höfundur er í framhaldsnámi við Stockholms Universit.






Skoðun

Sjá meira


×