Skoðun

Æxli takk en engar bólur

Þorsteinn Hilmarsson skrifar

Sverrir Jakobsson skrifar í Fréttablaðið 2. desember og kvartar undan óvandaðri umfjöllun um ástæður fjármálakreppunnar íslensku. Hann lýsir þremur „bólum“ sem blásnar hafi verið upp og hann telur hafa valdið uslanum. Eina þeirra segir hann vera virkjunarframkvæmdir.

Hann telur að erlendar skuldir Landsvirkjunar verði þungur baggi á þjóðinni næstu árin og hafi verið það lengi. Þessi fullyrðing Sverris stenst ekki skoðun. Hið sanna er að rekstur Landsvirkjunar skilaði rúmlega 8,5 milljörðum kr. í handbæru fé á sl. ári og svipuðum upphæðum mörg undanfarin ár. Á fyrra helmingi þessa árs skilaði fyrirtækið 76 milljónum dollara í handbæru fé. Handbært fé greiðir niður skuldir fyrirtækisins eða nýtist til fjárfestinga.

Erlendar skuldir Íslendinga við fall bankanna losuðu 9.500 milljarða króna en fjárfestingin í Kárahnjúkavirkjun nam um 140 milljörðum á sama gengi. Ætla má að Kárahnjúkavirkjun borgi sig upp á 20 til 30 árum. Flest bendir til þess að 140 milljörðunum sem fóru í Kárahnjúkavirkjun hafi verið mun betur varið en megninu af þessum 9.500 milljörðum sem Íslendingar tóku að láni á undanförnum árum og valda nú kreppunni. Virkjunin skilar gjaldeyristekjum og getu til að byggja upp samfélagið að nýju.

Sverrir segir að hávaxtastefna Seðlabankans hafi verið sniðin að hagsmunum Landsvirkjunar sem hann nefnir „æxli á þjóðarlíkamanum“. Landvirkjun aflar gjaldeyristekna og flytur inn í landið. Það er fyrirtækinu í hag að fá sem flestar krónur fyrir gjaldeyrinn og því er hávaxtastefnan og hátt gengi ekki hagsmunamál Landsvirkjunar frekar en fiskútflytjenda.

Um umræðuna um kreppuna segir Sverrir: „Það gengur ekki lengur að reynt sé að tína til tilviljunarkennda sökudólga eftir því sem hverjum og einum hentar. Svoleiðis samkvæmisleikir eru ekki annað en moldviðri sem þyrlað er upp.“ Ég tek heilshugar undir það. En fyrr má nú vera moldvirðið að menn telji ljósið í myrkrinu æxli!

Höfundur er upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar.




Skoðun

Sjá meira


×