Skoðun

Hvernig er heimur barnsins þíns?

Hlín Böðvarsdóttir skrifar

Sem foreldrar könnumst við vel við þá tilfinningu að við vitum ekki alveg hvað er að gerast í heimi barnanna okkar og sama hvað við reynum þá heltumst við fljótlega úr lestinni. Þegar við náum loksins að skilja styttingar á msn og sms flóðinu þá koma nýjar styttingar, þegar við höfum loksins lært einn texta hjá einum rappara þá er hann kominn úr tísku og við höfum ekki einu sinni vogað okkur inn á hinar órannsökuðu brautir internetsins! Hvað getum við gert?

Tölvuveröldin er heimur unga fólksins og besta leiðin til að kynnast þeirra heimi er að uppfæra sig, með því að hella sér út í þennan óendanlega heim þekkingar, fróðleiks og félagsnetssíðna og því fyrr því betra. Meðalaldur íslenskra barna þegar þau fara á netið í fyrsta skipti er 7,7 ár og því er mikilvægt að við séum búin að kynna okkur og kenna þeim hvað er að gerast á netinu. Móðir kom til mín um daginn og sagði mér frá fimm ára dóttur sinni sem er á góðri leið með að verða „tölvunörd". Hún kann reyndar hvorki að skrifa né lesa en er greinilega búin að læra upp á sitt einsdæmi orð sem fleyta henni áfram á netinu. Eitt sinn var amman í heimsókn og sú stutta átti sinn tölvutíma. Þær sátu inni í eldhúsi þegar sú fimm ára fer að biðja ömmu sína um að stafa nafnið sitt sem amma gerði nátturulega samviskusamlega. Sú litla pikkaði inn stafina en allt í einu fóru að renna á móðirina tvær grímur. Hvað var hún eiginlega að gera? Hún lagði frá sér kaffibollann og fór til hennar og viti menn, hún var að sækja um Garfield greiðslukort í gegnum MasterCard í Kanada í nafni ömmu sinnar!

Einn vinsælasti vettvangur unga fólksins eru hinar ýmsu félagsnetsíður og eru Myspace og Facebook vinsælastar hér á landi. Þegar unglingar eru spurðir hvers vegna þeir nota þessar síður þá er algengasta svarið að vera í sambandi við vini. Þessu svari eiga foreldrar stundum erfitt með að kyngja og spyrja hvers vegna þau fari þá ekki út að hitta vinina, en við skulum líka muna eftir því þegar við lágum tímunum saman í símanum að tala við vini sem við vorum nýbúin að kveðja. Staðreyndin er sú að hver kynslóð hefur sína tækni. Góð leið til að auka samskipti foreldra og barna á netinu er að hafa þau sem vini á t.d. Facebook. Þar geta foreldrar séð hverjir vinirnir eru, hvernig samskiptin eru og hvað þau eru að bralla dagsdaglega. Sem dæmi má nefna foreldra sem tóku eftir því hjá unglingsdóttur sinni að staða hennar á Facebook hafði breyst úr „single" í „in a relationship", foreldrarnir hafa eflaust getað notað tækifærið og spurt hverra manna strákurinn væri!

Ef við tökum þátt í þessum heimi barnanna okkar þá erum við betur í stakk búin til að takast á við vandamál sem upp koma og kannski ekki síður að taka þátt í gleði og upplifunum eins og það að kynnast strák eða stelpu sem gæti orðið síðar hluti af fjölskyldunni. Eftir stendur að mikilvægi samskipta fjölskyldumeðlima er óbreytt en samskiptaleiðirnar eru fjölbreyttari og oft á tíðum, fyrir okkur fullorðna, flóknari.

SAFT og Síminn munu halda ráðstefnu um netnotkun barna og unglinga og ábyrgð foreldra laugardaginn 8. nóvember kl. 10.30 - 14.00 á Háskólatorgi HT102 í Háskóla Íslands og hvetjum við alla sem hafa áhuga á þessu málefni til að fjölmenna.

Höfundur er verkefnisstjóri SAFT.






Skoðun

Sjá meira


×