Viðskipti innlent

Landsbankinn greiðir út úr peningamarkaðssjóðum

Landsbankinn hefur ákveðið að slíta peningamarkaðssjóðum sínum og greiða inn á innlánsreikninga viðkomandi einstaklinga. Uppgreiðsluhlutfallið er mismunandi eftir mynt en flestir áttu Peningabréf í íslenskum krónum. Þeir fá 68,8 prósent af bréfum sínum greidd.

Þeir sem eiga Peningabréf í evrum fá 67,6 prósent greidd. Þeir sem áttu í dollurum fá 60,0 prósent greidd og þeir sem áttu í pundum fá 74,1 prósent greidd. Þá fá þeir sem áttu Peningabréf í dönskum krónum 70,1 prósent.

„Greiðslur munu berast sjóðfélögum þann 29. október næstkomandi inn á innlánsreikninga í viðkomandi gjaldmiðli. Greiðslur vegna Peningabréfa ISK verða greiddar inn á hávaxta innlánsreikning í Landsbankanum þar sem innstæður eru að fullu tryggðar," segir í tilkynningu frá bankanum.

Þá segir einnig: „Í framhaldi af setningu laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem sett voru á Alþingi hinn 6. október sl. og þess umróts sem orðið hefur á fjármálamarkaði, hefur verið lokað fyrir innlausnir allra peningamarkaðssjóða síðan 6. október.

Mikilvægt er að athuga að:

Þessir atburðir hafa breytt rekstrar- og fjárfestingarumhverfi peningamarkaðssjóða verulega.

Með lagasetningunni var forgangsröð krafna á banka breytt, þannig að innlán voru sett framar skuldabréfum á sömu fyrirtæki.

Umrót eins og það sem nú hefur orðið þýðir verulegt verðfall skuldabréfa innlendra banka. Það sama á við um skuldabréf fleiri útgefenda á markaði.

Skuldabréf í fjármálafyrirtækjum voru áður talin öruggur fjárfestingarkostur enda báru þau traustar einkunnir alþjóðlegra lánshæfismatsfyrirtækja er sögðu til um áreiðanleika þeirra."

„Afar gott er að óvissu um Peningamarkaðssjóði Landsbankans sé nú aflétt og viljum við þakka viðskiptavinum okkar fyrir þann skilning og þolinmæði sem þeir hafa sýnt á þessum vandasama tíma," segir Stefán H. Stefánsson, framkvæmdastjóri Eignastýringarsviðs. „Samkvæmt tilmælum frá Fjármálaeftirliti, hefur sjóðunum verið slitið og sjóðfélögum verða á næstu dögum greiddar út eignir í formi innlána í hlutfalli við eign hvers og eins. Útgreiðsluhlutfallið tekur mið af því verulega verðfalli sem orðið hefur á skuldabréfum innlendra banka og annarra útgefenda á markaði. Sjóðsfélögum Peningabréfa ISK er enn fremur boðið að leggja greiðsluna inn á innlánsreikning bankans sem ber hæstu fáanleg kjör, eða 0,50% umfram efsta þrep Vaxtareiknings sem er hæsti innlánsreikningur bankans."

Þá segir að á næstu dögum fái allir eigendur Peningabréfa sent bréf á sitt lögheimili þar sem fram koma útgreiðsluupphæð og upplýsingar um innlánsreikning.

Viðskiptavinum er vinsamlegast bent á frekari upplýsingar á www.landsbanki.is

Einnig er hægt að hafa samband við Ráðgjafa- og þjónustuver í síma 410 4000.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×