Viðskipti innlent

Glitnir þarf að afskrifa 13 milljarða vegna Stíms

Kvótakóngurinn Jakob Valgeir Flosason er skráður sem eigandi og eini stjórnarmaður Stím ehf sem fjárfesti fyrir tæpa 25 milljarða í Glitni og FL Group í nóvember á síðasta ári. Nú, rúmu ári seinna, hefur félagið tapað 13 milljörðum, milljörðum sem Glitnir þarf að afskrifa.

Stím keypti fyrir 16 milljarða í Glitni í nóvember á síðasta ári og átta milljarða í FL Group. Heimildir Vísis herma að Stím hafi keypt bréfin í báðum félögum að stærstum hluta af Glitni sem hafi á móti lánað félaginu tæpa 25 milljarða.

Stím seldi bréf sín í Glitni seinni hluta marsmánaðar á þessu ári með um fimm milljarða tapi. Kaupendur voru eftir því sem Vísir kemst næst Danske Bank og Glitnir. Jafnframt skipti Stím bréfum sínum í FL Group fyrir 0,87% hlut í Glitni þegar FL Group varð einkahlutafélag. Sá hlutur tapaðist þegar Glitnir var þjóðnýttur.

Heimildir Vísis herma að bankinn hafi ekki farið fram á neinar persónulegar ábyrgðir gegn þessu gríðarstóra láni heldur hafi aðeins verið tekið veð í bréfunum í Glitni og FL Group. Bankinn mun því væntanlega þurfa að afskrifa 13 milljarða vegna Stíms-ævintýrisins.

Jakob Valgeir, sem rekur útgerðarfyrirtækið Jakob Valgeir á Bolungarvík, hefur þráfaldlega neitað að tjá sig um málefni Stím þegar eftir því hefur verið leitað. Þórleifur Stefán Björnsson, forstöðumaður fjárstýringar Saga Capital, var í stjórn Stíms með Jakobi Valgeiri þar til í lok ágúst á þessu ári þegar hann sagði sig úr stjórn. Þórleifur Stefán, sem var jafnframt prókúruhafi, vildi ekkert tjá sig um Stím þegar samband var haft við hann. Þórleifur Stefán sagðist vera bundinn trúnaði við viðskiptavini.

Már Másson, upplýsingafulltrúi Glitnis, sagði í samtali við Vísi að hann gæti ekki tjáð ekki tjáð sig um málið þar sem það væri ekki á færi bankans að tjá sig um viðskiptavini hans á hverjum tíma.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×