Innlent

Sól á Suðurnesjum fagnar gagnaveri

MYND/Víkufréttir

Samtökin Sól á Suðurnesjum fagna því að samið hafi verið um uppbyggingu gangavers á Keflavíkurflugvelli en telja að ekki þurfi að virkja í Þjórsá vegna þess. Þetta kemur fram í ályktun frá samtökunum.

Þar segir einnig að með samningi Verne Holdings, Landsvirkjunar, Farice og Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar sé tekið mikilvægt skref í áttina að því að koma upp atvinnustarfsemi sem byggir á hátækni-og þekkingariðnaði á Suðurnesjum.

,,Orkuþörf gagnavers er u.þ.b. 1/10 af orkuþörf hugsanlegs álvers í Helguvík. Með örari bráðnun jökla á undanförnum og komandi árum er hægt að ná þeirri orku út af kerfinu án þess að virkja sérstaklega. Samtökin harma því ummæli forstjóra Landsvirkjunar sem sagði Þjórsá verða virkjaða í þessu tilefni, það væri þá af illgirni einni gert," segir Sól á Suðurnesjum.

Þá fagna þau því aðOrkuveita Reykjavíkur hafi tekið upp sömu stefnu og Landsvirkjun varðandi sölu á raforku, þ.e. að leggja aukna áherslu á að selja hana öðrum en álfyrirtækjum. Vonast samtökin til þess að Hitaveita Suðurnesja sjá ljósið í þessum efnum áður en verður of seint, en fyrirtækið selur nú umtalsverða orku til Norðuráls á Grundartanga.

,,Sem betur fer eru fjölmörg egg í körfum Suðurnesjamanna þessa dagana. Hvaða annar landsbyggðarhluti státar af uppbyggingu á nýjum háskóla, kvikmyndaveri og alþjóðlegu gagnaveri, og nýtur þess einnig að vera í nálægð við bæði höfuðborgarsvæðið og alþjóðaflugvöll sem stækkar á hverju ári? Suðurnesjamenn hafa öll spilin í hendi sér, það er bara spurning um að velja bestu eggin," segir Sólarfólk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×