Handbolti

Á von á miklum baráttuleik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Patrekur Jóhannesson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.
Patrekur Jóhannesson er einn þriggja sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

„Þjóðverjar leggja mikið upp úr þessum leik og þýska þjóðin á von á að sjá nýtt landslið gegn Íslandi í dag,“ sagði Patrekur Jóhannesson, einn sérfræðinga Vísis um EM í handbolta.

Ísland mætir í dag Þýskalandi í fyrstu umferð milliriðlakeppninnar en leikurinn hefst klukkan 15.20. Honum verður lýst í beinni textalýsingu á Vísi.

Patrekur var staddur í Þrándheimi í Noregi á meðan milliriðlakeppninni stóð en kom heim í gær. 

„Ég fylgdist með síðustu æfingu landsliðsins í gær og var það flott æfing. Liðið æfði aðallega sóknarleikinn og var Ólafur Stefánsson með og lék bæði hægra megin og á miðjunni. Maður sá hversu miklu Ólafur breytir fyrir liðið og kemur með ákveðinn klassa í það. “ 

„Það sem ég hafði helst áhyggjur af var hvort hann myndi finna eitthvað fyrir meiðslunum. En mér sýndist ekki vera svo. Ég spjallaði líka við hann og heyrði á honum að hann var alveg klár í slaginn.“

„Ég heyrði líka í nokkrum leikmönnum eftir Frakkaleikinn, Guðjóni Val, Sigfúsi, Einari og fleirum, og þeir voru allir staðráðnir í því að gera sitt allra besta. Ég á því von á liði sem mætir af heilum hug til leiks. Þetta verður baráttuleikur, það er engin spurning.“ 

Patrekur efast einnig að Frakkaleikurinn sitji í mönnum. „Ég ræddi við Tomas Svensson, markvörð Svía, sem sagði að sjálfir hefðu þeir ekki átt séns í Frakkana. Þeir væru bara í öðrum klassa. Persónulega var ég ekki svekktur eftir þann leik enda voru Frakkarnir bara miklu, miklu betri.“ 

„Það sem gerir leikinn í dag einnig spennandi er að Þjóðverjar töpuðu illa fyrir Spánverjum. Þeir leggja mikið upp úr þessum leik og segja að þýska þjóðin muni sjá nýtt og betra landslið í dag. Ég á því von á skemmtilegum leik þar sem hart verður barist og vonandi mikil harka. Það er einnig vonandi að varnarleikurinn og markvarslan hjá okkur verði góð.“

„Bæði þessi lið þurfa nauðsynlega á sigri að halda og því verður þetta ekki betra fyrir þann sem verður að horfa á.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×