Handbolti

Brand: Ísland með heimsklassaleikmenn

Heiner Brand, þjálfari þýska landsliðsins.
Heiner Brand, þjálfari þýska landsliðsins. Nordic Photos / Bongarts

Heiner Brand sagði í samtali við þýska fjölmiðla í gær að hann búist við erfiðum leik gegn Íslandi í dag.

Brand er landsliðsþjálfari Þýskalands og stýrði sínum mönnum til sigurs á heimsmeistaramótinu í fyrra. Þýskaland og Ísland eigast við í fyrsta leik milliriðlakeppninnar í dag.

„Íslenska liðið er með mjög sterkan leikmannahóp og nokkra sem eru í algjörum heimsklassa. Þeir hafa úr stórum hópi leikmanna að velja sem er ótrúlegt miðað við hvað þjóðin er fámenn," sagði Brand.

Ísland tapaði illa fyrir Frökkum og Svíum í riðlakeppninni en Brand segir að það skuli enginn afskrifa liðið af þeim sökum.

„Það er lítið hægt að segja um Frakka, það er nánast ekki hægt að vinna þá. Liðið er með besta leikmannahópinn í keppninni. Svíarnir eru þar að auki á leiðinni aftur upp á topp handboltans."

Þjóðverjar töpuðu illa fyrir Spánverjum í lokaleik riðlakeppninnar, 30-22. Brand segir að það sé þó engin krísa í þýska landsliðshópnum.

„Við þurfum að bæta okkur til að ná árangri og það má vel læra af tapleikjum. Við munum ekki hengja haus eftir tapið enda vitum við vel að mótið er ekki búið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×