Erlent

Bush neitaði að gefa grænt ljós á árás á Íran

George W. Bush.
George W. Bush.

George Bush gerði Ísraelum grein fyrir því síðastliðið vor að Bandaríkin myndu ekki gefa grænt ljós á loftárásir Ísraela á Íran. Þetta hefur breska blaðið The Guardian eftir háttsettum evrópskum diplómata. Í greininni er sagt að Ísraelar hafi íhugað "alvarlega" að gera árásir á svæði í Íran þar sem talið er að þeir séu að vinna að kjarnorkutilraunum.

George Bush mun hins vegar hafa gert Ehud Olmert, þáverandi forsætisráðherra Ísrael, grein fyrir því að hann myndi ekki gefa grænt ljós á slíkar aðgerðir. Hann er einnig sagður hafa ýjað að því að sú afstaða myndi ekki breytast á meðan hann væri við völd í Hvíta húsinu. Þeir Bush og Olmert eru sagðir hafa rætt þessi mál undir fjögur augu þann 14. maí síðastliðinn þegar Bush var viðstaddur hátíðarhöld í Ísrael til þess að minnast þess að 60 ár voru liðin frá stofnun ríkisins.

Heimildarmenn blaðsins eru sagðir vinna fyrir evrópskan þjóðarleiðtoga sem ekki er nefndur á nafn. Sá mun hafa hitt Olmert stuttu eftir fund hans við Bush þar sem Olmert sagði greindi honum frá afstöðu Bush. Leiðtoginn á síðan að hafa sagt undirmönnum sínum frá samtalinu.

Afstaða Bush í málinu er sögð hafa verið byggð á tveimur þáttum. Annars vegar ótta við svar Írana við árasunum, sem myndi að öllum líkindum byggja á árásum á bandarískt herlið í mið-austurlöndum. Hins vegar eru Bandaríkjamenn sagðir hafa haft áhyggjur af því að Ísraelum myndi mistakast að gera út um kjarnorkudrauma Írana í einni lotu og óhugsandi væri annað en að ítrekaðar árásir á landið myndu leiða til allsherjarstríðs.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×