Viðskipti innlent

Sviptingar í hópi ríkustu Íslendinga

Pálmi Haraldsson og Gísli Reynisson eru hástökkvararnir á lista yfir ríkustu einstaklinga landsins. Markaðurinn/Anton
Pálmi Haraldsson og Gísli Reynisson eru hástökkvararnir á lista yfir ríkustu einstaklinga landsins. Markaðurinn/Anton

Í úttekt Sirkus, fylgiblaðs Fréttablaðsins, í maí í fyrra voru feðgarnir Björg­ólfur Thor og Björgólfur Guðmundsson í tveimur efstu sætunum en Jón Ásgeir Jóhannes­son, starfandi stjórnarformaður Baugs, í þriðja sæti.

Miðað við hræringar á hlutabréfamörkuðum frá miðju síðasta ári er hins vegar útlit fyrir að Jón hafi tekið annað sætið af Björgólfi. Þá hefur talsvert rót orðið á lista yfir 25 ríkustu Íslendingana og sumir hverjir, sem trónuðu ofarlega á honum í fyrra, fallið mun neðar.

Miðað við grófa útreikninga á eignastöðu ríkustu einstaklinga Íslands færast þeir sem byggja auð sinn á skráðum eignum neðar á meðan þeir sem festa fé sitt í óskráðum eignum hafa færst ofar. Hafa ber í huga að erfiðara er að áætla virði óskráðra eigna en hinna.

Þannig eru þeir Bakkabræður, Lýður og Ágúst Guðmundssynir, sem voru í 4. til 5. sæti á listanum í fyrra með eignir upp á 80 milljarða hvor, komnir í hóp tuttugu ríkustu einstaklinga landsins. Auður þeirra liggur að mestu í fjármálaþjónustufyrirtækinu Existu, sem hefur fallið um rúm 65 prósent frá því Sirkus birti listann í fyrra. Þeir eru síður en svo á flæði­skeri staddir enda nema eignir hvors um sig tæpum 30 milljörðum króna. Sama skýring liggur á bak við sætaskipti Björg­ólfs eldri en stærstu eignir hans liggja í Landsbankanum og tengdum félögum.

Á sama tíma hafa þeir Karl Wernersson, stjórnarformaður Milestone og Aska Capital, og Ólafur Ólafsson, stjórnar­formaður Samskipa og Alfesca, færst ofar. Pálmi Haraldsson, meirihlutaeigandi í Fons, og Gísli Reynisson, stærsti hluthafinn í Nordic Partners, eru hástökkvararnir á lista yfir ríkustu einstaklinga landsins á milli ára. Pálmi var í 13. til 14. sæti á lista Sirkus í fyrra en skellir sér í fimmta sætið nú. Gísli, sem var í 15. sæti í fyrra, vermir 6. sætið nú, samkvæmt útreikningum Markaðarins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×