Viðskipti erlent

Úrskurður í deilu Microsoft og ESB á morgun

Bill Gates, eigandi Microsoft, bíður þess eflaust spenntur hver úrskurður dómstóls ESB verður.
Bill Gates, eigandi Microsoft, bíður þess eflaust spenntur hver úrskurður dómstóls ESB verður. MYND/AP

Dómstóll á vegum Evrópusambandsins kveður upp úrskurð á morgun um það hvort bandaríska hugbúnaðarfyrirtækið Microsoft hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á sviði stýrikerfa.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins komst að þeirri niðurstöðu fyrir þremur árum að Microsoft hefði notað Windows-stýrikerfi sitt, sem er að finna í 95 prósentum tölva í heiminum, til þess að kæfa samkeppni á sviði hugbúnaðar fyrir netþjóna og fjölmiðlun. Félagið hefði meðal annars hengt Windows Media Player við Windows-stýrrikerfið sem ESB taldi ólöglegt. Var félagið sektað um nærri 500 milljónir evra, jafnvirði nærri 45 milljarða króna, vegna þessa og gert að selja Windows án Windows Media Player.

Þessari ákvörðun áfrýjaði Microsoft til sérstaks dómstóls og taldi að framkvæmastjórn ESB bryti gegn rétti fyrirtækisins til framleiðslu á hugbúnaði. Dómstóllinn kveður upp úrskurð sinn í fyrramálið klukkan hálfátta að íslenskum tíma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×