Viðskipti innlent

Samherji kaupir í Rem Offshore í Noregi

 

Dótturfélag Samherja, Kaldbakur hf, hefur keypt tæplega 2,5 milljón hluti í Rem Offshore í Noregi á genginu 53,50 eða fyrir um tæplega 120 milljónir kr. Eftir kaupin á Samherji 6,24% hlut í félaginu. Jafnframt hefur verið gert samkomulag við fimm aðra hluthafa sem eiga 50,51% um að koma fram sameiginlega á aðal- og hluthafafundum Rem.

Rem Offshore er útgerðarfyrirtæki sem þjónar olíu-, byggingar- og rannsóknariðnaði á sjó. Félagið gerir út 7 stór skip en 12 skip til viðbótar eru í smíðum, til afhendingar á næstu 3 árum.

Floti Rem er sá nýjasti og fullkomnasti á þessu sviði í heiminum. Þjónustusvæði skipanna er aðallega á Norðursjó en einnig undan ströndum Mexíkó, Indlandi og Brasilíu. Rekstri félagsins er stýrt frá höfuðstöðvunum í Fosnavåg í Noregi og eru starfsmenn um 300.

Starfsemin hefur vaxið ört á undanförnum misserum og er velta Rem Offshore á árinu 2007 áætluð um 420 milljónir nkr. eða um 4,2 milljarðar kr. í samanburði við 189 milljónir nkr. á árinu 2006. Félagið var skráð á hlutabréfamarkað í Noregi í mars s.l.

Með þessum kaupum er Samherji að fara á nýjar slóðir í útgerð. "Rem Offshore er spennandi fyrirtæki, með framsækna og skarpa framtíðarsýn og við álítum möguleikana góða fyrir þennan rekstur. Þekking starfsmanna Samherja mun nýtast en einnig fáum við tækifæri til að öðlast nýja þekkingu í útgerð skipa. Það er mitt mat að þessi fjárfesting styrki Samherja til framtíðar bæði þekkingar- og rekstrarlega", segir Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja hf






Fleiri fréttir

Sjá meira


×