Innlent

Fyrrum vistmenn njóta aðstoðar

Bjarni Össurarson
yfirlæknirinn á vímuefnadeild segir rúmlega tíu manns úr Byrginu hafa beðið um hjálp.
Bjarni Össurarson yfirlæknirinn á vímuefnadeild segir rúmlega tíu manns úr Byrginu hafa beðið um hjálp.

Allstórir hópar fyrrverandi vistmanna Breiðavíkurheimilisins annars vegar og Byrgisins hins vegar hafa leitað aðstoðar hjá Landspítala - háskólasjúkrahúsi frá því að þjónustu fyrir fólkið var hleypt af stokkunum. Hún er í höndum fagaðila, sem ræða við fólkið og leggja línur fyrir áframhaldandi aðstoð við það innan heilbrigðiskerfisins.

Bjarni Össurarson, yfirlæknir á vímuefnadeild LSH, segir að rúmlega tíu manna hópur fyrrverandi vistmanna í Byrginu hafi leitað til deildarinnar.

„Við tökum upplýsingar frá öllum þeim sem til okkar leita og hafa verið í Byrginu. Þess ber að geta að ekki nærri allir í þessum hópi eru konur sem hafa verið misnotaðar. Við leggjum hvað mesta áherslu á að aðstoða þær,“ segir Bjarni.

Hann bætir við að rætt sé við fólkið og bráðavandi þess metinn, hvort það þurfi aðstoð félagsfræðinga, hjúkrunarfræðinga eða lækna eða afeitrun á deild. Þá sé verið að finna farveg fyrir frekari sálfræðiaðstoð, einkum handa konunum sem hafi orðið fyrir misnotkun.

Jón F. Sigurðsson, yfirsálfræðingur á geðdeild LSH, sem leiðir teymið er tekur á móti fólkinu sem dvaldi í Breiðavík, segir að allstór hópur hafi leitað sér aðstoðar.

„Það er reynt að bregðast eins fljótt við og auðið er og með eins góðum úrræðum og auðið er,“ segir hann. „Mennirnir koma úr ýmsum áttum, en það eru greinilega fagaðilar úti á landbyggðinni sem sinna þeim líka, auk þess sem félagsmálayfirvöld hafa tekið málið föstum tökum.“

Símanúmer sem fólkið getur beðið um aðstoð í er 543 4074 virka daga milli klukkan 9 og 16 fyrir 31. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×