Handbolti

Óvæntur sigur Lübbecke á Nordhorn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Birkir Ívar Guðmundsson átti mjög góðan leik í dag.
Birkir Ívar Guðmundsson átti mjög góðan leik í dag. Nordic Photos / AFP

Birkir Ívar Guðmundsson átti mjög góðan leik þegar að Lübbecke vann afar óvæntan sigur á Nordhorn í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag.

Hann fær mikið lof á heimasíðu félagsins í umfjöllun um leikinn en hann varði 24 skot, þar af tvö vítaköst og stóð í markinu allan leikinn.

Þórir Ólafsson lék vitanlega ekki með Lübbecke vegna meiðsla.

Lübbecke er engu að síður enn í næstneðsta sæti deildarinnar með níu stig en Nordhorn er í því fjórða með 28 stig. Tapið þýðir að liðið er farið að dragast aðeins frá toppliðunum þremur - Flensburg, Kiel og Hamburg.

Toppliðin þrjú unnu öll örugga sigra í dag. Flensburg er því enn á toppnum með 33 stig en Kiel og Hamburg eru í næstu sætum með 32 stig.

Flensburg vann þrettán marka sigur á Wilhelmshaven á útivelli, 40-27. Einar Hólmgeirsson og Alexander Petersson skoruðu tvö mörk hver en Gylfi Gylfason var markahæstur leikmanna Wilhelmshaven með átta mörk.

Kiel vann Grosswallstadt, 33-21, og Hamburg vann Melsungen, 38-25.

Liðið í fimmta sæti, Rhein-Neckar Löwen, tapaði hins vegar einnig afar óvænt fyrir Balingen, 35-33, á útivelli. Balingen er í þrettánda sæti deildarinnar eftir sigurinn.

Lemgo er í sjötta sæti og vann í dag sigur á Wetzlar, 27-19. Logi Geirsson var ekki í leikmannahópi Lemgo þó hann sé heill heilsu. Wetzlar er í tólfta sæti deildarinnar.

Íslendingaliðið Gummersbach er svo í sjöunda sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með 24 stig en liðið mætti öðru Íslendingaliði í dag, Minden. Gummersbach vann leikinn, 32-25.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk fyrir Gummersbach, Róbert Gunnarsson þrjú og Sverre Jakobsson lék í vörn liðsins.

Einar Örn Jónsson var markahæstur hjá Minden og skoraði sex mörk.

Göppingen tapaði fyrir Füchse Berlin á útivelli, 27-23. Jaliesky Garcia skoraði fimm mörk fyrir Göppingen.

Að síðustu vann Essen sigur á Magdeburg, 35-30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×