Körfubolti

Grindavík vann KR í æsispennandi leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Tiffany Roberson reynir hér að komast framhjá tveimur KR-ingum.
Tiffany Roberson reynir hér að komast framhjá tveimur KR-ingum. Víkurfréttir/Jón Björn

Grindavík vann í kvöld KR í æsispennandi leik í toppslag í Iceland Express deild kvenna. Góð byrjun Grindvíkinga í fjórða leikhluta tryggði á endanum tveggja stiga sigur, 86-84.

Staðan í hálfleik var 52-50, KR í vil. Gestirnir voru svo með fimm stiga forystu í upphafi fjórða leikhluta, 73-68, en þá skoruðu heimamenn í Grindavík fyrstu ellefu stigin í leikhlutanum.

KR skorar á þessum kafla ekki í sex mínútur og nær aldrei aftur að brúa það bil sem myndaðist þá þrátt fyrir að hafa komist nærri því undir lok leiksins.

Tiffany Roberson átti skínandi góðan leik fyrir Grindavík og skoraði 39 stig, tók 26 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Jovana Skiba kom næst með 20 stig og sjö stoðsendingar.

Hjá KR var Monique Martin stigahæst með 37 stig en hún tók fjórtán fráköst þar að auki. Hildur Sigurðardóttir átti einnig góðan leik en hún gerði sextán stig, tók tólf fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Keflavík komst aftur á topp deildarinnar í kvöld eftir sigur á Hamri, 100-81. KR var á toppnum en mistókst að halda sætinu vegna tapsins í Grindavík í kvöld.

Keflavík er með 20 stig en KR og Grindavík með átján. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×