Körfubolti

Naumur sigur hjá Haukastúlkum

Íslandsmeistarar Hauka lentu í kröppum dansi í Grafarvoginum í kvöld þegar liðið lagði Fjölni 73-71 eftir framlengdan leik í Iceland Express deild kvenna. Staðan var jöfn 63-63 að loknum venjulegum leiktíma, en Haukaliðið hélt sjó í framlengingunni og vann nauman sigur.

Slavica Dimovska skoraði 30 stig og hirti 8 fráköst fyrir Fjölni en tapaði reyndar 13 boltum í leiknum. Kiera Hardy skoraði 28 stig fyrir Hauka en hitti skelfilega úr skotum sínum, Telma Fjalarsdóttir skoraði 9 stig og hirti 15 fráköst og Ragna Brynjarsdóttir skoraði 8 stig og hirti 16 fráköst.

Segja má að Haukaliðið hafi klárað leikinn á vítalínunni, því þar náði liðið í 24 af stigum sínum. Skotnýting Hauka var skelfileg utan af velli, aðeins 23,7% í tveggja stiga skotum og svipuð úr langskotum. Lið heimamanna var með skárri nýtingu en fór aðeins sex sinnum á vítalínuna allan leikinn.

KR lagði Hamar í Hveragerði 72-64 þar sem Hildur Sigurðardóttir hjá KR var með 19 stig, 16 fráköst og 6 stoðsendingar. Sigrún Ámundadóttir var með 15 stig og 11 fráköst og systir hennar Guðrún Ámundadóttir skoraði 15 stig, en þær stöllur komu saman úr liði Íslandsmeistara Hauka fyrir leiktíðina.

LaKiste Barkus var atkvæðamest í liði Hamars með 22 stig og 8 fráköst og Fanney Guðmundsdóttir skoraði 18 stig.

Keflavík er sem fyrr á toppi deildarinnar með 16 stig eftir 8 leiki, Haukar í öðru með 14 eftir 9 leiki og Grindavík hefur 12 stig eftir 9 leiki líkt og KR sem er í fjórða sætinu. Valur hefur 2 stig í fimmta sæti, líkt og Hamar og Fjölnir sem verma botnsætin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×