Viðskipti innlent

Kaupþingi og Glitni hótað lokun fyrir að draga lappirnar í jafnréttismálum

Kaupthing Asa og Glitnir Securities, félög Kaupþings og Glitnis í Noregi, eru meðal þeirra félaga sem Karita Bekkemellem, jafnréttisráðherra Noregs, hefur hótað að loka vegna þess að þau uppfylla ekki lög um jafnan hlut kynja í stjórnum fyrirtækja á markaði.

Fram kemur á vef Aftenposten að um næstu áramót taki gildi lög um að konur skuli vera að minnsta kosti 40 prósent stjórnarmanna í skráðum fyrirtækjum. Þeim fyrirtækjum sem ekki fara að lögunum verður lokað að sögn Bekkemellem sem er búin að fá nóg af tregðu fyrirtækja til þess að jafna hlut karla og kvenna í stjórnum.

Um 140 fyrirtæki af um 500 á markaði hafa ekki orðið við tilmælunum og níutíu prósent þeirra hafa einungis á að skipa körlum í stjórnum sínum. Þar á meðal eru dótturfélög Glitnis og Kaupþings í Noregi, Glitnir Securities og Kaupthing Asa.

Bekkemellem segir að fyrirtækin fái fyrst bréf ef þau brjóti lögin. Þau hafi fjórar vikur til að svara því. Í kringum mars verði þeim svo hótað lokun hafi ekkert gerst og þá verði látið til skarar skríða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×