Innlent

Hátt í tvo mánuði frá grunnskóla vegna biðar eftir úrræðum

MYND/GVA

Mikilvægt er taka strax á alvarlegum agabrotum barna í grunnskólum og tryggja að þau fái strax þá aðstoð sem þörf er á, að sögn sérfræðings hjá menntasviði borgarinnar. Dæmi eru um að barn hafi verið frá skóla í allt að tvo mánuði vegna agabrots þar sem bið var eftir þeim úrræðum sem eru fyrir hendi.

Menntaráð Reykjavíkur samþykkti í gær nýja verkferla í grunnskólum borgarinnar vegna agabrota. Þeir eiga að vera leiðarvísir fyrir skólastjórnendur um hvernig taka eigi á öllum agabrotum, allt frá brotum á skólareglum til alvarlegra lögbrota. Samkvæmt hinum nýju reglum má ekki vísa nemanda úr skóla fyrir alvarleg agabrot nema annað skólaúrræði sé tryggt fyrir hann. Gera má undantekningu ef nemandi hefur orðið uppvís að fíkniefnasölu en þá má vísa nemanda úr skóla á meðan lögregla og Barnavernd rannsaka málið.

Legið þungt á stjórnendum hvernig taka skuli á alvarlegustu brotum

Óskar S. Einarsson, skólastjóri í Fossvogsskóla og formaður Skólastjórafélags Reykjavíkur, fagnar hinum nýju verkferlum og segir skólastjóra haft lagt mikla áherslu á að fá þá. Reglurnar hafi verið unnar í samstarfi við stjórnendur skólanna. „Það hefur legið þungt á sumum stjórnendum hvernig taka skuli á alvarlegustu brotunum. Það hafa verið í gildi ákveðnar reglur en menn hafa flaskað á ýmsu sem snýr að upplýsingaskyldu og réttindum nemenda. Þetta þarf auðvitað að vera á hreinu," segir Óskar. Það sé nú á hreinu að skólastjórnendur megi ekki reka nemendur úr skóla nema þeim séu fundin önnur úrræði.

Óskar segir enn fremur að skólarnir hafi ákveðið vald til að setja sínar eigin reglur en að þær og sömuleiðis hinir nýju verkferlar verði að vera sýnilegir, til að mynda á heimasíðum skólanna. Þá verði að kynna reglurnar fyrir foreldrum og nemendum.

Flöskuháls í kerfinu

Ef grunnskólanemendur verða uppvísir að mjög alvarlegum brotum eins og fíkniefnasölu eða grófu ofbeldi er þeim yfirleitt vísað úr skóla tímabundið á meðan lögregla og barnaverndaryfirvöld kanna málið. Að sögn Arthurs H. Morthens, sérfræðings á grunnskólaskrifstofu menntasviðs, hefur Brúarskóli í Vestuhlíð tekið við nemendum sem brotið hafa af sér og átt í erfiðleikum. Um 30-40 nemendur séu í skólanum.

Þeir nemendur sem uppvísir hafi orðið að fíkniefnasölu séu þó oftast fyrst sendir að meðferðarheimilinu Stuðlum en þar hafi myndast biðlistar síðustu misseri sem þýði að börn hafi þurft að bíða eftir þjónustunni. „Við höfum lent í því að nemandi sem vísað hefur verið úr skóla hafi þurft að bíða einn og hálfan til tvo mánuði þar til hægt var að taka á hans máli. Á meðan var hann utan skóla og það gengur ekki," segir Arthur. Þannig myndist ákveðinn flöskuháls í kerfinu. Skólakerfið sé háð tiltekinni þjónustu og ef hún fáist ekki strax lendi vandinn á skólakerfinu.

Arthur bendir þó á að barnaverndayfirvöld þurfi auðvitað tíma til þess að rannsakaða mál en engu að síður sé mikilvægt að tryggja börnum sem brjóta alvarlega af sér aðstöðu til að takast á við vandann.

Ekki mörg mál en erfið

Aðspurður segir Arthur að á síðasta skólaári hafi komið upp um 20 mál þar sem nemendur hafi orðið uppvísir að alvarlegu lögbroti í skóla. Fimm eða sex málanna hafi verið vegna fíkniefna en hin málin hafi flest verið ofbeldismál. Fíkniefnamálin séu bundin við 14 og 15 ára krakka en grófu ofbeldismálin komi fyrir í öllum árgöngum. „Þetta eru ekki mörg mál en þau eru erfið," segir Arthur.

Að sögn Arthurs er næsta skref að kynna hina nýju verkferla fyrir bæði skólastjórnendum og í þjónustumiðstöðvum borgarinnar sem komi einnig að málinu. Þá þurfi að skoða þjónustuna í Brúarskóla og þá sé búið að samþykkja og veita fé til sérstakrar fardeildar í Breiðholti þar sem sérfræðingar fari milli skóla og vinni með skólastjórnendum í erfiðum agamálum. Hugmyndir séu jafnvel uppi um að koma upp slíkri fagdeild í hverju hverfi borgarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×