Japanski leikjatölvurisinn Nintendo skilaði hagnaði upp á 174,3 milljarða jena, jafnvirði rúmra 94,6 milljarða íslenskra króna, á fyrstu þremur mánuðum þessa árs. Hagnaður fyrirtækisins hefur aldrei verið meiri enda er þetta rúmlega 77 prósentum meiri hagnaður hjá Nintendo en í fyrra. Afkoman skýrist að mestu af mikilli eftirspurn eftir Wii-leikjatölvunni sem kom á markað í nóvember í fyrra.
Þá mun sala á DS-lófatölvunni sömuleiðis hafa verið góð á tímabilinu en sala á báðum tölvum juku veltu Nintendo um 90 prósent á milli ára.
Nintendo seldi 23,56 milljónir stykkja af DS-leikjatölvunni í fyrra og 5,84 milljónir eintaka af Wii-leikjatölvunni. Fyrirtækið stefnir af enn betri árangri og vonast til þess að leikjatölvuunnendur kaupi 14 milljónir Wii-tölva á árinu öllu.
Vinsældir Wii-tölvunnar og góð afkoma félagsins hafa aukið tiltrú fjárfesta mjög á Nintendo en gengi bréfa í félaginu tvöfaldaðist í fyrra.