Innlent

Þjóðhátíðardagur haldinn hátíðlegur

Heiðursvörður skáta í morgun.
Heiðursvörður skáta í morgun. MYND/SK

Í dag er 17. júní þjóðhátíðardagur Íslendinga og fæðingardagur sjálfstæðishetjunnar Jóns Sigurðssonar. Dagurinn er haldinn hátíðlegur um allt land en í Reykjavík hefst formleg dagskrá núna klukkan tíu með því að Hanna Birna Kristjánsdóttir, forseti borgarstjórnar, leggur blómsveig frá Reykvíkingum að leiði Jóns Sigurðssonar í gamla kirkjugarðinum við Suðurgötu.

Þar mun Lúðrasveitin Svanur einnig leika "Sjá roðann á hnjúkunum háu. Klukkan tuttugu mínútur fyrir ellefu hefst dagskrá á Austurvelli þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, leggur blómsveig frá íslensku þjóðinni að styttu Jóns Sigurðssonar.

 

 

Forsætisráðherra flytur ávarp
Blómsveigur lagður að leiði Jóns Sigurðssonar í morgun.

Formaður þjóðhátíðarnefndar flytur ávarp og Karlakór Reykjavíkur syngur áður en Geir H. Haarde forsætisráðherra flytur ávarp. Eftir það ávarpar fjallkonan hátíðargesti. Þjóðhátíðardagskrá verður síðan víðsvegar um höfuðborgina í allan dag og langt fram á kvöld, sem og í öllum bæjarfélögum, þorpum og sveitum landsins.

Íslendingar hlutu fullt sjálfstæði frá Dönum hinn 17. júní 1944 þegar lýðveldi var stofnað á Þingvöllum og Sveinn Björnsson ríkisstjóri var kjörinn fyrsti forseti Íslands. Íslendingar höfðu þá játast ýmist noregs- eða danakonungum frá árinu 1262. Alþingi var hins vegar fyrst stofnað á Þingvöllum árið 930.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×