Innlent

Minna um búðahnupl í Smáralind

Forvarnarstarfið hefur skilað góðum árangri í Smáralind.
Forvarnarstarfið hefur skilað góðum árangri í Smáralind. fréttablaðið/daníel

„Þjófnaðarmál voru orðin svo stór hluti af starfi lögreglunnar að við urðum að bregðast við,“ segir Anna Elísabet Ólafsdóttir, svæðislögreglumaður í Kópavogi. Anna var fulltrúi lögreglunnar í Kópavogi í samstarfi við Öryggismiðstöðina, öryggisdeild Haga og stjórnendur Smáralindar um að minnka búðahnupl meðal unglinga í Kópavogi. Starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar sem sér um eftirlit í Smáralind segjast hafa séð mikinn árangur af forvarnastarfinu.



Árið 2004 hófst samtarfið þegar hópurinn samrýmdi vinnuferli. Fór í gegnum merkingar í verslunum og bætti það sem betur mátti fara. „Dæmi um það sem við gerðum var að setja myndavél við nammibarinn í Hagkaupum í Smáralind. Þar er skjár sem krakkarnir sjá sjálfa sig í. Það dró talsvert úr hnupli í nammibarnum,“ segir Anna. Hópurinn kortlagði einnig þjófnaði í verslunum. Hverju væri stolið og af hverjum. Þá kom í ljós að við ellefu ára aldur byrjuðu börnin gjarnan að stela. Mestu var stolið af nammi eða um sextíu prósent. Næst komu snyrtivörur sem voru um þrjátíu prósent. Þar voru stúlkur að verki í flestum tilfellum.



Hópurinn útbjó því næst bæklinga, annars vegar fyrir ungmennin og hins vegar fyrir foreldra barna sem eru gómuð við þjófnað.



Anna hefur farið á hverju ári frá 2004 í alla grunnskóla Kópavogs og heimsótt sjöttubekkinga og farið yfir málin með þeim. „Flest ungmenni sem eru gómuð við þjófnað stela ekki aftur því þau átta sig á alvarleika málsins. Því er mikilvægt að ná til þeirra áður en fyrsta skiptið verður,“ segir Anna.



„Bæklingurinn til foreldranna er ekki síður mikilvægur. Þar fá foreldrarnir rökstuðning fyrir því af hverju lögreglan er að gera mál úr því að ellefu ára gamalt barn steli nammi,“ segir hún.



„Við höfum orðið varir við mjög góðan árangur af forvarnastarfinu,“ segir Ómar Örn Jónsson, markaðsstjóri Öryggismiðstöðvarinnar. Að sögn Ómars á Öryggismiðstöðin í góðu samstarfi við lögregluna í Kópavogi. „Þeir eru duglegir að fara í Smáralind og vera sýnilegir. Eins eru þeir fljótir að svara kallinu þegar það kemur,“ segir Ómar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×